Skoðun

Vel gert

Kolbeinn Marteinsson skrifar
Einn stærsti kostur okkar Íslendinga er hvað við hrósum hvert öðru lítið. Þar sem hrós er svo fágætt hér á landi er verðmæti þess mikið. Íslenskt hrós er miklu meira virði en t.d. amerískt sem gefið er við nánast öll samskipti, „oh, that’s awesome“ o.s.frv.

Það er líka mikill galli á okkur hvað við hrósum hvert öðru lítið. Því réttmætt hrós við réttar aðstæður getur dimmu í dagsljós breytt og gefið gleði og von.

En það skiptir líka máli hver hrósar okkur. Komi það frá foreldrum má strax gengisfella það um að minnsta kosti helming. Eitt sinn heyrði ég sagt að oflof foreldra skapi vesalinga sem geti ekki tekið gagnrýni enda sannfærð um að allar gjörðir þeirra séu ekkert annað en stórkostlegar. Hrós frá manneskju sem við berum virðingu fyrir vegur oftast þyngst og slíkt hrós getur fylgt manni ævina á enda.

Við eigum því að fara sparlega með hrós, ekki veita það í innantómu orðagjálfri fyrir sjálfsagða hluti og aðeins þegar ástæða er til. Þó barn teikni mynd á blað þá þýðir það ekki að það eigi heimtingu á að vera sagt listamaður. Góðu tíðindin eru þau að það er fullt af hlutum í lífi okkar sem eiga það sannarlega skilið að vera hrósað.

Ef við sjáum eitthvað gert á þann hátt að það veitir okkur innblástur eða fyllir okkur gleði eigum við að skjóta skilaboðum á viðkomandi og láta hann vita af því. Sama á við ef við fáum framúrskarandi þjónustu eða sjáum vinnufélaga okkar vinna vel unnin verk. Slík hrós vega alltaf miklu meira og lifa lengur en laun viðkomandi. Því skaltu í dag stefna að því að hrósa einhverjum sem á það skilið. Endurtaktu svo leikinn aftur á morgun og þú hefur gert þennan heim aðeins betri en hann var.
Skoðun

Skoðun

Tölum um gæði

Sigríður Maack,Jóhanna Høeg Sigurðardóttir,Helga Guðrún Vilmundardóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.