Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Njarðvík 72-85 | Sannfærandi hjá Njarðvík

Ísak Hallmundarson skrifar
vísir/bára
Dominos-deild karla í körfubolta hófst í dag. ÍR tók á móti Njarðvíkingum í Seljaskóla. Þessi tvö lið mættust í 8-liða úrslitum íslandsmótsins síðasta vor þar sem ÍR vann 3-2 í æsispennandi einvígi.

ÍR mæta þó með talsvert breytt lið inn í mótið í vetur þar sem nokkrir lykilleikmenn frá síðasta tímabili eru horfnir af braut en Njarðvík misstu einnig frá sér mikilvæga leikmenn eins og Elvar Már Friðriksson og Jeb Ivey.

Njarðvík byrjaði leikinn betur og ÍR-ingar áttu erfitt með að koma boltanum ofan í körfuna. Njarðvíkingar voru komnir 10 stigum yfir eftir 7 mínútna leik og staðan eftir fyrsta leikhluta 13-21 fyrir Njarðvík.

Í öðrum leikhluta komust Njarðvík mest 14 stigum yfir. Nýr leikmaður í liði þeirra, Wayne Martin, fór mikinn og að öðrum leikhluta loknum var hann kominn með 16 stig og 8 fráköst. ÍR-ingar náðu aðeins að laga stöðuna áður en flautað var til hálfleiks og var munurinn 11 stig eftir tvo leikhluta, 33-44.

Njarðvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og komust 16 stigum yfir en þá tóku Breiðhyltingar við sér, náðu 13-5 áhlaupi og minnkuðu muninn í 8 stig. Þeir fengu fjölda tækifæra til að minnka muninn enn frekar undir lok 3. leikhluta en nýttu skotin illa og Njarðvíkingar refsuðu. Staðan 48-58 fyrir síðasta leikhlutann.

Leikurinn róaðist þegar á leið og Njarðvíkingar juku hægt og þétt forskot sitt og héldu því til loka leiksins. Lokatölur urðu 72-85 fyrir Njarðvíkingum sem geta verið sáttir með þessa byrjun á íslandsmótinu. ÍR-ingar þurfa hinsvegar að púsla sínum leik betur saman, þá sérstaklega sóknarleiknum.

vísir/bára
Borche: Njarðvík átti sigurinn skilið

Borche Ilievski þjálfari ÍR var að vonum svekktur með tap sinna manna í kvöld.

„Þér líður ekki vel þegar þú tapar. Við spiluðum ekki vel, Njarðvíkingar áttu þennan sigur skilið. Við vorum 9-11 stigum undir stærsta hluta leiksins en það vantaði frumkvæði til að koma til baka úr þeirri stöðu.“

„Við þurfum meira flæði í sóknarleikinn og að bregðast betur við varnarlega. Það var meiri barátta hjá Njarðvík í kvöld, þeir vildu sigurinn meira heldur en við og spiluðu meira með hjartanu.“

Borche segir liðið sitt þurfa tíma til að stilla saman strengi sína: „Þeir hafa spilað saman í langan tíma en við erum með alveg nýtt lið og þurfa meiri tíma til að skapa liðsheild og vita hvernig við eigum að spila.“

vísir/bára
Einar Árni: Týpískur fyrsti leikur

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var sáttur með sigurinn og baráttu sinna manna en taldi þó margt í þeirra leik ábótavant.

„Ég var ánægður með sigurinn og baráttuna. Þetta var samt týpískur fyrsti leikur, engin hágæði og við klúðruðum fullt af opnum skotum. Það að ná í sigur er númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Einar.

Hann segir þetta heilt yfir hafa verið ágætisleik og var nokkuð sáttur með frammistöðu nýrra leikmanna innan liðsins.

vísir/bára
Trausti: Markmiðið að fara í úrslitakeppnina

Trausti Eiríksson, leikmaður ÍR, segir ekki mikið af góðum hlutum sem liðið geti tekið úr þessum leik.

„Þetta var bara ekki fallegt. Við spiluðum illa saman, þeir tóku alltof mörg sóknarfráköst, vörnin var léleg, það gekk ekkert sóknarmegin og það var ekkert skipulag. Það eru ekki margir góðir hlutir sem við getum tekið frá þessum leik.“

„Við þurfum að læra að halda áfram. Þegar munurinn var kominn niður í 5-7 stig fórum við út úr kerfunum og gerðum eitthvað annað en það sem var búið að virka áður. Því miður náðum við ekki að komast neðar en það í dag,“ sagði Trausti.

Aðspurður um markmið liðsins fyrir tímabilið segir Trausti að stefnan sé augljóslega sett á úrslitakeppnina.

„Þá getur allt gerst. Við sáum það í fyrra. Það er október og þetta var fyrsti leikurinn, við erum ekkert að panikka, stefnan er augljóslega sett á úrslitakeppnina.“

vísir/getty
Logi: Óbragð í munni eftir síðasta tímabil

Logi Gunnarsson leikmaður Njarðvíkur segir fyrsta leikinn alltaf erfiðan og óútreiknanlegan:

„Það er alltaf erfitt að fara í fyrsta leik, maður veit ekki alltaf hvar maður hefur andstæðinginn, sérstaklega eftir miklar breytingar. Það er mjög ánægjulegt að byrja með góðum útisigri og spila góða vörn,“ sagði Logi

Hann segist vera mjög sáttur með framlag nýju leikmannana í liðinu:

„Ég tel okkur vera mjög djúpa sem liðsheild og við getum róterað hratt á mörgum mönnum. Þessir nýju leikmenn eru að koma vel inn í þetta, við erum mjög djúpir og vel stilltir varnarlega.“

Spurður út í væntingar fyrir tímabil segir Logi markmiðið vera að fara alla leið:

„Það eru alltaf miklar væntingar í Njarðvík og við erum enn með óbragð í munninum eftir síðasta tímabil. Þá fórum við í þetta til þess að vinna þetta og ætlum að gera það aftur núna. Ég tel okkur vera með mjög sterkt lið, svipað og í fyrra,“ sagði Logi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira