Viðskipti innlent

Minnisvarði í djammsögunni deyr drottni sínum

Jakob Bjarnar skrifar
Jóel Briem segir að margar ástæður fyrir því að reksturinn var orðinn vonlítill.
Jóel Briem segir að margar ástæður fyrir því að reksturinn var orðinn vonlítill. visir/Vilhelm

Boston við Laugaveg í Reykjavík hefur verið lokað. Boston hefur verið starfrækt árum saman og má heita sögufrægur staður. Það vill oft gleymast að skemmtistaðir, krár og barir geta og hafa gegnt mikilvægu menningarlegu hlutverki í listasögunni. Og svo er með Boston. Þarna hafa fjölmargir þekktir áhrifa- og listamenn komið fram og svo skemmt sér. Þekktastur úr þeim hópi hlýtur að vera Björk sem þarna þeytti skífum og steig dans.

„Monjúment í djammsögunni? Jájá, þetta var voðalega skemmtilegt,“ segir Sigríður Guðlaugsdóttir, sem betur er þekkt sem Sigga kennd við veitingastaðinn Sirkus, sem nú rekur Sirkus endurreistan á Seyðisfirði. En, hún hefur einnig verið kennd við Boston og ein þeirra sem átti hlut í rekstrinum.

„Þetta var VIP-staður, eða í byrjun. Björk var þarna fastagestur og DJ-aði oft. Já, það voru eiginlega allir þarna í byrjun, borgarstjórar og fleiri,“ segir Sigga og hlær. Þarna var lengi vel staðið fyrir ýmsum skemmtilegum uppákomum.

Ekki vantaði fjörið á Boston.

„En maður nennir þessu ekki endalaust. Í tvö ár var verið að byggja hótel þarna við hliðina og heyrðist ekki milli borða. Þetta er ekki hægt. Svo há leiga, það kemst enginn til þín, ladída. Þetta er mjög mikið rugl í Reykjavík. Dásamlegt að vera á Seyðisfirði,“ segir Sigga.

Sá sem hefur undanfarin fjögur árin rekið staðinn er Jóel Briem, sonur Siggu. Hann mun sakna Boston og telur víst að svo sé um fleiri. „Það er ekkert að því að eiga góðar minningar,“ segir Jóel. En, það hafi því miður ekki verið um neitt annað að ræða en loka, róðurinn var orðinn of þungur. Sjálfur rekur Jóel nú meðal annars tvo staði úti í Færeyjum.

Leigan rauk án fyrirvara upp úr öllu valdi

Jóel hefur verið lengi viðloðandi veitingarekstur. Byrjaði að starfa í geiranum aðeins átján ára gamall og fór sjálfur út í rekstur fljótlega upp úr tvítugu.

Boston við Laugaveg. Nú er búið að loka staðnum og víst að margir munu sakna hans.

„Fyrir þremur árum hækkaði leigan um 85 prósent eða þar um bil. Fór úr 480 þúsund kalli í 800 þúsund kall. Með hita og rafmagni, en húsið er svo gamalt, fór kostnaður í 960 á mánuði. Þá hækkaði launakostnaður snögglega,“ segir Jóel. Og þegar allt þetta lagðist saman var þetta orðinn þungur róður.

Jóel hefur svipaða sögu að segja og margir sem fást við rekstur við Laugaveginn. Leigan er að ríða mörgum á slig auk þess sem ýmsir kvarta undan því að aðgengi sé og hafi lengi verið í ólestri. Og þegar við bætist erfið samkeppni frá hótelrekstri er þetta orðin brekka.

„Þetta var mikið stress og álag. Það voru kannski að koma mánaðarmót og við vissum ekki hvort við næðum endum saman,“ segir Jóel. Miklar áhyggjur fylgdu og samkeppni. Hann segir að það virtist ætla að létta til þegar yfirlýsingar frá borginni komu þess efnis að ekki yrðu gefin út fleiri veitingaleyfi. Þetta væri orðið svo mikið.

Erfið samkeppni við hótelin

„Það var bara jákvætt, að búið væri að setja bremsu á þetta enda komið út í rugl. En tveimur mánuðum síðar var byrjað að byggja hótel og svo annað hótel. Þetta hefur verið algjört bull.“

Jóel segir það ekkert spaug að halda rekstri á floti í miðborginni. visir/vilhelm

Og það er ekki hægt að standa í samkeppni við hótel sem er með eldhús sem kostaði kannski hundruð milljóna.

„Við vorum með „Happy hour“ frá fjögur til átta. En, þá var hótelið kannski komið með happy hour til tíu. Og önnur hótel komin með „happy hour“ frá 12 til átta. Þetta var vonlaust og ég finn til með veitingafólki sem reynir að standa sig. Það eina sem kemur í fréttum er að bjórinn sé svo dýr,“ segir Jóel en bendir á að þar sé til margs að líta. Ölgerðin hafi hækkað verðið frá sér. Og áfengisgjöldin hækka og hækka,“ segir Jóel og telur upp ýmis atriði sem saman komin eru ekki hagfelld þeim sem vilja standa í slíkum rekstri.

Launahækkanir þungar fyrir rekstraraðila

„Og launin hækka en enginn vill borga meira fyrir hlutina. Það er dýrt að vera með starfsfólk, svo að kosta hljómsveitir og viðburðir. Við erum með starfsfólk á nóttinni en ekki daginn. Eins og hótelin. Sem eru með fólk á 1600 hundruð kall á tímann. Um leið og klukkan er orðin sex lendum við í öðrum launaflokki. Eftir miðnætti í þeim þriðja. Við getum ekki unnið með dagtaxta í þessum bransa. Enginn að fara að koma og fá sér bjór nema kannski Jói á hjólinu.“

Boston. Staðurinn heyrir nú sögunni til.

Jóel segir að eitt og annað hafa komið til sem gerði þeim erfitt fyrir með að halda Boston gangandi. Eigandi hússins hafi lengi ætlað sér að selja það og ekki viljað gera leigusamning nema til tveggja ára, með sex mánaða uppsagnarákvæði ef til sölu kæmi. Þannig að de facto væri þetta ekki nema hálfs árs leigusamningur.

Uggvænleg þróun í miðborginni

Jóel segir forsendu þess að geta staðið í veitingarekstri vera öruggur leigusamningur. „Þú þarft að geta horft fram í tímann og skipulagt þig þannig, að lágmarki fjögur ár fram í tímann. Við vorum komin út í horn þegar við fengum óvænta hækkun á leigu í staðinn fyrir lengingu á leigusamningi. Það gerði útslagið.“

Jóel segist verðmæti veitingastaða einkum liggja í leigusamningnum. Hann segist finna til með þeim sem eru með rekstur í miðborginni og eigi ekki sitt húsnæði. Að þeim sé sótt úr öllum áttum. „Litlu kaupmennirnir sem hafa gert þessa borg að því sem hún er, eða var, það er búið að bola þeim í burtu.“

Jóel, sem unir hag sínum vel úti í Færeyjum og svo á Seyðisfirði, segir alla hluti taka enda en að sama skapi sé þróunin uggvænleg. „Ég þekki mikið af kláru veitingafólki sem ætti að vera í rekstri en er nú komið út úr geiranum.“


Tengdar fréttir

Sirkus fær framhaldslíf á Seyðisfirði

Skemmtistaðurinn Sirkus verður opnaður á ný og nánast í upprunalegri mynd á Seyðisfirði innan tíðar. Græjunar, barborðið og stólarnir frá gamla staðnum sitja í gámi við hafnarbakkann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SJOVA
4,07
9
303.378
SYN
2,64
5
27.100
SKEL
2,23
11
194.125
TM
2,09
5
37.017
VIS
2,08
9
112.993

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
HEIMA
-0,72
3
4.135
ORIGO
-0,56
2
2.001
KVIKA
0
5
43.093
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.