Viðskipti innlent

102 milljarðar í nýja orku­mæla, að­veitu­stöð raf­magns fyrir far­þega­skip og fleira

Atli Ísleifsson skrifar
Fjárhagsspá samstæðu OR fyrir árabilið 2020 til 2025 var samþykkt af stjórn OR í dag.
Fjárhagsspá samstæðu OR fyrir árabilið 2020 til 2025 var samþykkt af stjórn OR í dag. vísir/vilhelm
Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur gerir ráð fyrir að næstu sex árin verði 102 milljörðum króna varið í viðhalds- og nýfjárfestingar á vegum samstæðunnar. Allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna er stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á tímabilinu en einnig er gert ráð fyrir byggingu nýrrar aðveitustöðvar rafmagns sem getur þjónað farþegaskipum í Sundahöfn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR en fjárhagsspá samstæðu OR fyrir árabilið 2020 til 2025 var samþykkt af stjórn OR í dag. Spáin fer nú til umfjöllunar sem hluti af fjárhagsáætlun samstæðu Reykjavíkurborgar.

Í tilkynningunni segir að fjárhagur OR sé traustur og engra stórra breytinga að vænta í tekjum eða gjöldum á næstu árum samkvæmt spánni. Innan samstæðunnar eru Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykavíkur, auk móðurfélagsins.

Í spánni kemur fram að á næstu árum verði haldið áfram að greiða niður skuldir og er gert ráð fyrir að nettóskuldir Orkuveitu Reykjavíkur lækki um 35 milljarða frá 2019 til ársloka 2025.

Þá segir að arðgreiðslur til eigenda – það er Reykjavíkurborgar (93,5 prósent), Akraneskaupstaðar (5,5 prósent) og Borgarbyggðar (1 prósent) – munu nema 15 milljörðum króna á árunum 2020 til 2025.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×