Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Fram 25-23 | Endurkomusigur Aftureldingar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Freyr Stefánsson hefur verið frábær í marki Aftureldingar.
Arnór Freyr Stefánsson hefur verið frábær í marki Aftureldingar. vísir/bára
Afturelding vann endurkomusigur á Fram á heimavelli sínum að Varmá í 3. umferð Olísdeildar karla í kvöld.Gestirnir úr Safamýrinni byrjuðu leikinn betur og komust í 3-0 áður en Afturelding náði að skora löglegt mark. Afturelding átti í miklum vandræðum í sókninni framan af og gekk illa að koma boltanum í netið.Eftir því sem leið á unnu heimamenn sig samt inn í leikinn og jöfnuðu þeir í 8-8 þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum. Síðustu mínúturnar voru jafnar en það voru bláklæddir sem áttu síðasta orðið í fyrri hálfleik og leiddu 10-11 að honum loknum.Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og komust mest fimm mörkum yfir áður en heimamenn vöknuðu til lífsins á nýjan leik. Afturelding komst yfir í fyrsta skipti í leiknum á 51. mínútu og höfðu rauðklæddir undirtökin út leikinn. Að lokum stóðu þeir uppi sem sigurvegarar með 25-23 sigur.Af hverju vann Afturelding?

Heimamenn sýndu mikla seiglu að koma til baka og vinna sig inn í leikinn aftur. Það verður hins vegar að segjast að Framarar áttu sinn hlut í þessu og má segja að þeir hafi kastað sigrinum frá sér. Þeir fóru að klúðra sóknum á meðan augnablikið var með Aftureldingu.Hverjir stóðu upp úr?

Báðir markmennirnir áttu fína leiki. Þeir voru ekki með neinar ofurtölur en áttu sína kafla í leiknum og skiluðu góðu dagsverki. Andri Heimir Friðriksson var áberandi í leik Fram bæði í vörn og sókn og var Birkir Benediktsson mjög drjúgur fyrir Aftureldingu með sjö mörk.Hvað gekk illa?

Á köflum í leiknum gekk Aftureldingu illa að brjóta á bak aftur sterka vörn Fram. Gestunum gekk hins vegar illa að standast pressuna undir lokin, fóru í ótímabærar og vanhugsaðar sóknaraðgerðir og það varð þeim að falli.Hvað gerist næst?

Næsta umferð verður leikin um næstu helgi. Fram fær Hauka í heimsókn í Safamýrina um miðjan dag á laugardag en Afturelding sækir FH heim í Kaplakrika á sunnudagskvöld.

Einar Andri: Sýndum seiglu og karakter

„Þetta var mjög erfiður leikur. Við erum að elta í einhverjar 50 mínútur nánast, en Framararnir voru okkur erfiðir í dag. Við sýndum seiglu og karakter í seinni hálfleik og náðum að snúa þessu við,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.„Mér fannst við ólíkir sjálfum okkur. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Við missum boltann í dripli, spennustigið var eitthvað skrítið og sóknarleikurinn var allan tímann í basli þangað til við förum í sjö á sex.“„Þeir réðu ekkert við það og ég held við höfum bara farið með eina eða tvær sóknir eftir að við fórum í það. Vörnin var líka slök þangað til við breyttum og fórum í 5+1 vörn. Þangað til fannst mér þetta bara mjög erfitt.“Fannst honum hans menn hafa sótt sigurinn, eða voru það Framarar sem köstuðu leiknum frá sér? „Ég veit það ekki.“„Við sýndum seiglu og að lokum var þetta sanngjarnt, við erum með leikinn síðustu tíu mínúturnar.“Dómarapar kvöldsins er ungt og að stíga sín fyrstu skref í dómgæslu í efstu deild, stúkan var ekki ánægð með frammistöðu þeirra í kvöld, hvað fannst Einari Andra um þá?„Þeir verða að fá að byrja einhvers staðar. Þetta umhverfi er erfitt fyrir unga menn að koma inn og þeir stóðu sig örugglega betur heldur en stúkunni og okkur þjálfurunum og liðunum fannst. Við erum oft ósanngjarnir og sjáum hlutina betur eftir leik.“

 

Guðmundur Helgi: Verðum að standa saman og berjast fyrir öllu

„Þetta er hundleiðinlegt, vægast sagt,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.„Mér fannst við tapa leiknum, ekki þeir endilega að sigra hann. Það er mitt mat.“„Við vorum alveg með þá og héldum skipulagi þangað til tíu mínútur eru eftir. Þá förum við í ótímabær skot, í pínu agaleysi sem gengur ekkert upp á móti sínu liði.“Hvað þurftu Framarar að gera til þess að koma í veg fyrir að missa leikinn niður? „Skora. Mjög einfalt.“„Við vorum að taka of erfið skot í restina og taka erfiðar ákvarðanir. Það kom niður á okkur í restina því Birkir setti á okkur þrjú, fjögur mörk í restina og við náum varla að snerta hann.“„Einbeitingin dettur niður eða eitthvað.“Það var mikil stemning í liði Fram í leiknum, datt vissulega niður undir lokin, er það eitthvað sem Guðmundur Helgi lagði sérstaklega upp með?„Við stöndum fyrir það. Við verðum að standa saman og berjast fyrir öllu. Allir boltar sem eru lausir, við ráðumst á þetta allt saman og þannig verðum við svolítið að byggja okkar leik.“„Við erum ekki með neinar stórskyttur beint og þurfum að gera þetta svolítið öðruvísi en maður er vanur kannski.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.