Handbolti

Hefur verið erfitt hjá Valsmönnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valur hefur valdið vonbrigðum í upphafi Olísdeildar karla í handbolta en Valsmenn mæta Íslandsmeisturum Selfoss annað kvöld.

„Þetta hefur verið svolítið erfitt hjá þeim og þeir hafa átt erfitt með að skora. Hverjum það er að kenna veit maður ekki, en það vantar auðvitað aðeins inn í liðið,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, sérfræðingur Stöðvar 2 Sport, við Guðjón Guðmundsson.

„Miðað við frammistöðu þeirra í síðasta leik þá held ég þeir komi heldur betur sterkir inn og vilji bíta frá sér.“

Íslandsmeistararnir töpuðu fyrir ÍR á heimavelli í síðustu umferð en Halldór Jóhann segir það ekki endilega hafa komið á óvart.

„Kannski var skiljanlegt þeir myndu eiga slæman dag í annarri umferðinni eftir að hafa unnið FH í fyrstu umferð.“

„Þeir eru með ungt lið og það vantar töluvert inn í liðið. Þetta eru margir ungir strákar og Haukur Þrastarson þarf að hafa liðið svolítið á herðum sínum.“

Leikur Vals og Selfoss hefst klukkan 20:15 í Origohöllinni og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×