Handbolti

Einar Andri: Sýndum seiglu og karakter

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Einar Andri hrósaði sínum mönnum eftir leikinn.
Einar Andri hrósaði sínum mönnum eftir leikinn. vísir/bára
Einar Andri Einarsson var ánægður með karakterinn í hans mönnum í Aftureldingu sem unnu endurkomusigur gegn Fram í Olísdeild karla í kvöld.

„Þetta var mjög erfiður leikur. Við erum að elta í einhverjar 50 mínútur nánast, en Framararnir voru okkur erfiðir í dag. Við sýndum seiglu og karakter í seinni hálfleik og náðum að snúa þessu við,“ sagði Einar Andri.

„Mér fannst við ólíkir sjálfum okkur. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Við missum boltann í dripli, spennustigið var eitthvað skrítið og sóknarleikurinn var allan tímann í basli þangað til við förum í sjö á sex.“

„Þeir réðu ekkert við það og ég held við höfum bara farið með eina eða tvær sóknir eftir að við fórum í það. Vörnin var líka slök þangað til við breyttum og fórum í 5+1 vörn. Þangað til fannst mér þetta bara mjög erfitt.“

Fannst honum hans menn hafa sótt sigurinn, eða voru það Framarar sem köstuðu leiknum frá sér? „Ég veit það ekki.“

„Við sýndum seiglu og að lokum var þetta sanngjarnt, við erum með leikinn síðustu tíu mínúturnar.“

Dómarapar kvöldsins er ungt og að stíga sín fyrstu skref í dómgæslu í efstu deild, stúkan var ekki ánægð með frammistöðu þeirra í kvöld, hvað fannst Einari Andra um þá?

„Þeir verða að fá að byrja einhvers staðar. Þetta umhverfi er erfitt fyrir unga menn að koma inn og þeir stóðu sig örugglega betur heldur en stúkunni og okkur þjálfurunum og liðunum fannst. Við erum oft ósanngjarnir og sjáum hlutina betur eftir leik.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×