Handbolti

Góð byrjun Elvars: Með 88,9% skotnýtingu og stoðsendingahæstur hjá Stuttgart

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar í leik með Aftureldingu.
Elvar í leik með Aftureldingu. vísir/daníel
Elvar Ásgeirsson hefur farið vel af stað með Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.

Mosfellingurinn er þriðji markahæsti leikmaður Stuttgart það sem af er tímabili og sá stoðsendingahæsti.

Í fyrstu fimm leikjum Stuttgart í þýsku deildinni hefur Elvar skorað 16 mörk úr aðeins 18 skotum. Það gerir 88,9% skotnýtingu.

Þá hefur Elvar gefið 13 stoðsendingar í fyrstu fimm leikjum tímabilsins, langflestar í liði Stuttgart.

Þrátt fyrir góða spilamennsku Elvars hefur lítið gengið hjá Stuttgart. Liðið er með eitt stig í sautjánda og næstneðsta sæti deildarinnar.

Í fyrra var Elvar með 5,1 mark og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik með Aftureldingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×