Körfubolti

Heiðra goðsögn hjá Þór með sérstakri áletrun á treyju sinni í Dominos deildinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Thorsport.is
Þór Akureyri mun leika með sérstaka áletrun á treyju sinni í Dominos-deildinni í vetur til heiðurs og til að sýna stuðning við Ágúst Herbert Guðmundsson, fyrrum þjálfara félagsins, sem hefur barist við MND sjúkdóminn undanfarin ár.

Ágúst er goðsögn í körfuboltanum á Akureyri þar sem hann hefur komið að þjálfun í nær öllum flokkum Þórs undanfarna áratugi, allt frá yngstu flokkum og upp í meistaraflokk. Hann varð að hætta þjálfun árið 2017 þegar sjúkdómurinn hafði tekið mikinn toll af honum.

Áletrunin „Fyrir Ágúst“ verður á keppnisbúningi Þórs í vetur en í frétt á heimasíðu Þórs segir að merkið hafi verið hannað af systur Ágústs, Ingibjörgu Berglindi. 

Þar segir jafnframt að stór hluti Þórsliðsins séu drengir sem Ágúst hafi þjálfað til fjölda ára og vill körfuknattleiksdeildin með þessu þakka Ágústi fyrir hans framlag.

Fyrsti leikur Þórs í Dominos deildinni verður gegn Haukum í Hafnarfirði þann 3.október næstkomandi en Þórsarar eru nýliðar í deildinni eftir eins árs veru í 1.deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×