Handbolti

Gunnar: Grétar kom okkur í gang

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar er á sínu fimmta tímabili sem þjálfari Hauka.
Gunnar er á sínu fimmta tímabili sem þjálfari Hauka. vísir/bára
„Ég er ánægður með stigin tvö. Fyrstu leikirnir snúast um að safna stigum. Við vissum að þetta yrði ekki besti leikur tímabilsins en við þurftum að sýna karakter og taka slaginn við þá. Við vissum að þeir yrðu grimmir í byrjun og við þyrftum að vera þolinmóðir. Við vorum það og hristum þá hægt og rólega af okkur,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, eftir sigurinn á HK, 28-24, í kvöld.

„Liðsheildin var sterk og margir lögðu í púkkið. Við nýttum breiddina vel sem var mikilvægt því það er mikið álag á okkur núna.“

Grétar Ari Guðjónsson var magnaður eftir að hann kom inn á þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Hann varði 52% þeirra skota sem hann fékk á sig í leiknum.

„Við vorum hálf sofandi í fyrri hálfleik og þurftum einhvern til að koma okkur í gang. Og hann gerði það. Að sama skapi var meiri hraði og hreyfanleiki hjá okkur og við komum okkur í betri færi,“ sagði Gunnar.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn af fítonskrafti og skoruðu fyrstu sex mörk hans. Það tók HK níu og hálfa mínútu að skora sitt fyrsta mark í seinni hálfleik en gestirnir komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn heimamanna.

„Við fengum betra jafnvægi á varnarleikinn. Við vorum of aftarlega í byrjun en fórum framar í þá og náðum góðri vörn. Svo slökuðum við aftur á og þeir fengu góð skot,“ sagði Gunnar.

„Það var mjög gott að fá tvö stig. Þetta var skyldusigur fyrir okkur en við urðum að vinna. HK er með gott lið sem á eftir að fá fullt af stigum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×