Handbolti

Guðmundur Helgi: Er alltaf bjartsýnn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Helgi og strákarnir hans eru enn án stiga í Olís-deildinni.
Guðmundur Helgi og strákarnir hans eru enn án stiga í Olís-deildinni. vísir/bára
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var nokkuð brattur þrátt fyrir fjögurra marka tap fyrir ÍBV, 23-27, í 2. umferð Olís-deildar karla í dag.„Ég er sáttur með að við spiluðum betur en í síðasta leik. Við gáfum einu besta liði Íslands hörkuleik. Mér fannst brottvísanirnar sem Toggi fékk ódýrar og það setti strik í reikninginn en allir hinir stóðu sig þokkalega,“ sagði Guðmundur og vísaði til þess að Þorgrímur Smári Ólafsson fékk þrjár tveggja mínútna brottvísanir í fyrri hálfleik. Hann lék því ekkert í þeim seinni og munaði um minna.Fram skoraði bara 14 mörk gegn Val í 1. umferðinni en sóknarleikurinn var mun betri í dag. Framarar spiluðu með sjö í sókn allan tímann.„Við vorum búnir að ákveða þetta fyrir löngu og náðum loks að æfa þetta í vikunni. Þetta virkaði ágætlega og við ætluðum að koma þeim á óvart. Svo er aldrei að vita hvað maður gerir næst,“ sagði Guðmundur.„Við þurftum að fara þessa leið gegn þessari vörn og þetta gekk upp í 45-50 mínútur. En við töpuðum boltanum of oft og þurfum að æfa þetta betur.“Guðmundur var þokkalega sáttur með vörnina en vildi fá fleiri varða bolta.„Okkur vantaði bara markvörslu í fyrri hálfleik. Lalli [Lárus Helgi Ólafsson] byrjaði ágætlega en datt svo niður á meðan Bjössi [Björn Viðar Björnsson] lokaði hjá þeim og varði helling í fyrri hálfleik,“ sagði Guðmundur.Næsti leikur Fram er gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum eftir viku.„Ég er alltaf bjartsýnn. Við höldum áfram, förum í hvern leik til að vinna og höfum gaman að þessu. Vonandi skilar það stigum,“ sagði Guðmundur að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.