Umfjöllun og viðtöl: Fram - ÍBV 23-27 | Eyjamenn með fullt hús stiga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjamenn eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar í Olís-deild karla.
Eyjamenn eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar í Olís-deild karla. vísir/bára
ÍBV vann fjögurra marka sigur á Fram, 23-27, í Safamýrinni í 2. umferð Olís-deildar karla í dag. Eyjamenn eru með fullt hús stiga en Framarar án stiga.

Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur í liði ÍBV með sjö mörk og Gabríel Martinez Róbertsson skoraði sex. Matthías Daðason skoraði sjö mörk fyrir Fram.

Fram lék mun betur í þessum leik en leiknum gegn Val í síðustu umferð þar sem liðið skoraði aðeins 14 mörk. Sóknarleikurinn var allt annar og betri í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. Fram spilaði með sjö í sókn allan leikinn og það gaf góða raun.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur og komust í 5-2. Gestirnir voru lengi í gang en Björn Viðar Björnsson hleypti lífi í þá með góðri markvörslu.

Þótt sóknin hjá Fram hafi verið mun betri en gegn Val var vörnin ekki jafn öflug. Eftir rólega byrjun fór sóknarleikur ÍBV í gang og þeir komust jafnan í góð færi ef þeir náðu að láta boltann ganga. Lárus Helgi Ólafsson byrjaði vel í marki Fram en gaf svo verulega eftir.

Í lokasókn ÍBV í fyrri hálfleik fékk Þorgrímur Smári Ólafsson sína þriðju brottvísun fyrir brot á Kristjáni í þann mund sem leiktíminn rann út. Kristján tók aukakastið sjálfur, skoraði úr því og kom ÍBV í 14-16.

Í seinni hálfleik var ÍBV með frumkvæðið en náði aldrei að slíta Fram af sér. Eyjavörnin var miklu sterkari en í fyrri hálfleik og kom leikmönnum Fram oft í stöður sem þeir réðu illa við. Heimamenn töpuðu boltanum hátt í tíu sinnum í seinni hálfleik.

Fram hleypti smá spennu í leikinn þegar liðið minnkaði muninn í þrjú mörk, 21-24, en þá steig ÍBV aftur á bensíngjöfina og gerði nóg til að landa fjögurra marka sigri, 23-27.

Af hverju vann ÍBV?

Eyjamenn voru lengi í gagn, sérstaklega í varnarleiknum sem hrökk ekki í gang fyrr en í seinni hálfleik. Eyjavörnin var þá mjög þétt og þvingaði Framara í erfiðar aðgerðir.

Þá var markvarsla ÍBV betri og liðið skoraði sex mörk eftir hraðaupphlaup gegn aðeins einu hjá Fram.

Þrátt fyrir tapið geta Framarar gengið nokkuð hnarrreistir frá leiknum, enda var frammistaðan mun betri en gegn Valsmönnum í 1. umferðinni.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristján Örn var ekki í sama ham og gegn Stjörnunni í 1. umferð en skilaði samt sjö mörkum. Gabríel klikkaði á fyrsta skotinu sínu en næstu sex enduðu í markinu. Alls skoruðu hornamenn ÍBV tólf mörk úr aðeins 14 skotum.

Elliði Snær Viðarsson var frábær í Eyjavörninni í seinni hálfleik og skoraði auk þess þrjú mörk. Björn Viðar varði svo ellefu skot í marki gestanna (44%).

Matthías átti góðan leik í vinstra horninu hjá Fram og Valdimar Sigurðsson var öflugur á línunni. Arnar Snær Magnússon lék einnig vel í fyrri hálfleik í stöðu hægri skyttu.

Hvað gekk illa?

Þriðja brottvísun Þorgríms Smára reyndist Fram dýr. Hann var ekkert stórkostlegur í fyrri hálfleik en mun betri en þeir sem leystu hann af í seinni hálfleik.

Andri Heimir Friðriksson, Eyjamaðurinn í liði Fram, var í erfiðri stöðu í seinni hálfleik eftir að Þorgríms Smára naut ekki lengur við og gerði of mörg mistök.

Eyjamenn fengu lítið frá leikstjórnendum og vinstri skyttum sínum í dag en það kom ekki að sök.

Hvað gerist næst?

Næsta sunnudag sækir Fram Aftureldingu heim á meðan ÍBV fær FH í heimsókn í stórleik 3. umferðar.

Guðmundur Helgi var bærilega sáttur með sína menn gegn ÍBV.vísir/bára
Guðmundur Helgi: Ódýrar brottvísanir sem Toggi fékk

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var nokkuð brattur þrátt fyrir fjögurra marka tap fyrir ÍBV í dag.

„Ég er sáttur með að við spiluðum betur en í síðasta leik. Við gáfum einu besta liði Íslands hörkuleik. Mér fannst brottvísanirnar sem Toggi fékk ódýrar og það setti strik í reikninginn en allir hinir stóðu sig þokkalega,“ sagði Guðmundur og vísaði til þess að Þorgrímur Smári Ólafsson fékk þrjár tveggja mínútna brottvísanir í fyrri hálfleik. Hann lék því ekkert í þeim seinni og munaði um minna.

Fram skoraði bara 14 mörk gegn Val í 1. umferðinni en sóknarleikurinn var mun betri í dag. Framarar spiluðu með sjö í sókn allan tímann.

„Við vorum búnir að ákveða þetta fyrir löngu og náðum loks að æfa þetta í vikunni. Þetta virkaði ágætlega og við ætluðum að koma þeim á óvart. Svo er aldrei að vita hvað maður gerir næst,“ sagði Guðmundur.

„Við þurftum að fara þessa leið gegn þessari vörn og þetta gekk upp í 45-50 mínútur. En við töpuðum boltanum of oft og þurfum að æfa þetta betur.“

Guðmundur var þokkalega sáttur með vörnina en vildi fá fleiri varða bolta.

„Okkur vantaði bara markvörslu í fyrri hálfleik. Lalli [Lárus Helgi Ólafsson] byrjaði ágætlega en datt svo niður á meðan Bjössi [Björn Viðar Björnsson] lokaði hjá þeim og varði helling í fyrri hálfleik,“ sagði Guðmundur.

Næsti leikur Fram er gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum eftir viku.

„Ég er alltaf bjartsýnn. Við höldum áfram, förum í hvern leik til að vinna og höfum gaman að þessu. Vonandi skilar það stigum,“ sagði Guðmundur að lokum.

Kristinn og félagar eru með fullt hús stiga.vísir/bára
Kristinn: Framleiðir ekki fleiri en fjögur stig úr tveimur leikjum

Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV, sagði að þolinmæði hefði verið dyggð gegn Fram í dag.

„Þetta kom okkur ekkert á óvart. Við höfum vanalega átt í óttalegu basli með Fram. Þeir áttu ekki góðan leik gegn Val í síðustu umferð og það kom okkur ekkert á óvart hvernig þeir komu inn í þennan leik. Við vissum að við þyrftum að vera þolinmóðir,“ sagði Kristinn eftir leik.

Fram lék með sjö í sókn allan leikinn. Kristinn sagði að það útspil Framara hafi ekki komið Eyjamönnum á óvart.

„Í sjálfu sér ekki, sérstaklega ekki í ljósi þess hvernig gekk hjá þeim gegn Val,“ sagði Kristinn en vörn ÍBV var mun betri í seinni hálfleik en þeim fyrri.

„Eðli varnar okkar er að hún verður betri eftir því sem líður á leikinn. Við látum leikmenn taka margar ákvarðanir og það er auðveldara að gera það þegar þú ert ekki þreyttur. Við þéttum vörnina í seinni hálfleik. Þetta var góður vinnusigur en það er samt margt sem við getum bætt.“

Í næstu umferð mætir ÍBV bikarmeisturum FH.

„Það eru fullt af stórleikjum framundan. Það verður gaman að takast á við FH-ingana. Þeir eru með hörkulið,“ sagði Kristinn sem kvartar ekki yfir byrjun Eyjamanna á tímabilinu.

„Þú framleiðir ekki fleiri en fjögur stig úr tveimur leikjum. Byrjunin er fín og við höfum trú á því sem við erum að gera án þess að við séum á neinu flugi. Þetta er langt mót en það er gott að vera komnir með tvo sigra.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira