Handbolti

Þorgils Jón í bann en Kristján Ottó slapp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Ottó Hjálmsson slapp við bann.
Kristján Ottó Hjálmsson slapp við bann. Vísir/Daníel

Aganefnd HSÍ tók þrjú mál fyrir á nýjasta fundi sínum þar af tvö þeirra úr Olís deild karla.

HK-ingurinn Kristján Ottó Hjálmsson sleppur við bann en sömu sögu er ekki að segja af Valsmanninum Þorgils Jóni Svölu Baldurssyni.

Hér fyrir neðan má sjá úrskurð aganefndar í málum þeirra Kristjáns Otta og Þorgils Jóns.

„Kristján Ottó Hjálmsson leikmaður HK hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik HK og Fjölnis í mfl. ka. þann 15.9. 2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 b). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það því niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar,“ segir um mál Kristjáns.

„Þorgils Jón Svölu Baldursson leikmaður Vals hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik FH og Vals í mfl. ka. þann 15.9. 2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar,“ segir um mál Þorgils.

Þriðja málið var hins vegar úr leik FH og Fram U í Grill 66 deild kvenna en þar viðurkenndu dómarar leiksins að hafa ranglega rekið leikmann FH útaf með rautt spjald.

„Britney Cots leikmaður FH hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik FH og Fram U í mfl. kv. þann 13.9. 2019. Í agaskýrslu frá dómurum kemur fram að við endurmat á atvikinu hafi þessi ákvörðun verið röng og rauða spjaldið því dregið tilbaka,“ segir í úrskurðinum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.