Handbolti

Þorgils Jón í bann en Kristján Ottó slapp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Ottó Hjálmsson slapp við bann.
Kristján Ottó Hjálmsson slapp við bann. Vísir/Daníel
Aganefnd HSÍ tók þrjú mál fyrir á nýjasta fundi sínum þar af tvö þeirra úr Olís deild karla.

HK-ingurinn Kristján Ottó Hjálmsson sleppur við bann en sömu sögu er ekki að segja af Valsmanninum Þorgils Jóni Svölu Baldurssyni.

Hér fyrir neðan má sjá úrskurð aganefndar í málum þeirra Kristjáns Otta og Þorgils Jóns.

„Kristján Ottó Hjálmsson leikmaður HK hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik HK og Fjölnis í mfl. ka. þann 15.9. 2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 b). Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það því niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar,“ segir um mál Kristjáns.

„Þorgils Jón Svölu Baldursson leikmaður Vals hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik FH og Vals í mfl. ka. þann 15.9. 2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar,“ segir um mál Þorgils.

Þriðja málið var hins vegar úr leik FH og Fram U í Grill 66 deild kvenna en þar viðurkenndu dómarar leiksins að hafa ranglega rekið leikmann FH útaf með rautt spjald.

„Britney Cots leikmaður FH hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik FH og Fram U í mfl. kv. þann 13.9. 2019. Í agaskýrslu frá dómurum kemur fram að við endurmat á atvikinu hafi þessi ákvörðun verið röng og rauða spjaldið því dregið tilbaka,“ segir í úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×