Handbolti

Steinunn Björns: Þetta endar vonandi betur en síðasta vetur

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Steinunn lyftir bikarnum á loft
Steinunn lyftir bikarnum á loft
„Það er gott að vera byrjuð aftur,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, eftir að hafa fagnað með sínu liði sem varð meistari meistaranna eftir þrettán marka sigur á Val í kvöld.

„Við áttum frábæran leik, það er gott að vera byrjaðar og við fengum bara einhverja útrás í dag“ sagði Steinunn

Fram náði snemma leiks öllum tökum á leiknum og héldu þær vel í forystuna sem þær höfðu náð. Steinunn segir að þær hafi lagt upp með því að halda áfram að keyra á Val sama hversu góðri forystu þær næðu

„Við lögðum upp með það, að ef við myndum ná forystu þá myndum við halda áfram að keyra á þær. Við höfum ekki verið neitt sérstaklega góðar í því. Við spiluðum á okkar styrkleikum, spiluðum góða vörn, fengum góða markvörslu og keyrðum á þær.“

Steinunn hrósar nýju leikmönnunum fyrir sína frammistöðu og segir að liðið sé að ná vel saman. Fram nældi sér í þær Perlu Ruth Albertsdóttir, Kristrúnu Steinþórsdóttir og Katrínu Ósk Magnúsdóttir, sem allar spiluðu stórt hlutverk í kvöld

„Ég er virkilega bjartsýn fyrir vetrinum, ég hlakka mikið til. Þetta eru frábærar stelpur sem við erum búnar að fá en að sjálfsögðu misstum við stóra pósta frá okkur. Við bara getum ekki beðið eftir að byrja þetta Íslandsmót.“

Val og Fram er spáð efstu tveimur sætunum á öllum miðlum. Steinunn segir að þessi leikur gefi alls enga mynd um það hvernig liðin verði í vetur enda hafi Valur ekki verið að spila á sínu besta liði.

„Nei langt frá því, Valur var ekki að spila á sínu sterkasta liði. Spáin segir að þetta séu tvö bestu liðin en það verður bara að koma í ljós, það er mikil óvissa með þessa deild núna, mikið af útlendingum og þetta verður bara að koma í ljós. Þetta er bara spennandi og endar vonandi betur en á síðasta tímabili.“

Svo þetta var bara fyrsti titillinn af mörgum í vetur?

„Já, ég vona það allavega,“ sagði Steinunn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×