Innlent

Landspítalinn þurfti ekki að borga fyrir hleðslustöðvarnar

Ari Brynjólfsson skrifar
Hleðslustöð ON.
Hleðslustöð ON. Fréttablaðið/Valli

Engar greiðslur fóru á milli Landspítalans og Orku náttúrunnar (ON) við uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir rafbíla við Landspítalann á Hringbraut, Fossvogi, við Landakot og Klepp.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hefur Ísorka kært ON til Samkeppniseftirlitsins. Er ON gefið að sök að nota markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði til að koma sér í einokunarstöðu á miðlun rafmagns til rafbíla. Þessu hafna forsvarsmenn ON.

Árið 2017 hafnaði Landspítalinn tilboðum samkeppnisaðila ON um uppsetningu hleðslustöðva við starfsstöðvar vegna kostnaðar. Í kjölfarið hafði ON samband við spítalann um fimm ára tilraunaverkefni þar sem ON myndi greiða allan kostnað við uppsetningu stöðvanna. Það eina sem Landspítalinn þurfti að tryggja voru rör fyrir leiðslur frá rafmagnskassa að hleðslustöðvunum.

Í áætlun var gert ráð fyrir að framkvæmdirnar myndu kosta ON 4,9 milljónir króna með virðisaukaskatti. Alls er um að ræða 12 stæði og bíleigendur þurfa að vera með lykil eða app frá ON.

Hvorki Landspítalinn né ON vildu opinbera samninginn, sem var undirritaður í apríl í fyrra, en í niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá því í desember segir að um sé að ræða tvo opinbera aðila þar sem verið sé að ráðstafa opinberum fjármunum, því þurfi að opinbera hann.

Orka náttúrunnar neitar að opinbera hversu mikið hleðslustöðvarnar hafa kostað fyrirtækið en í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að rekstur hleðslustöðvanna sé bundinn trúnaði.


Tengdar fréttir

Engin leið að keppa við ON

Ísorka hefur kært Orku náttúrunnar, dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, til Samkeppniseftirlitsins. Forsvarsmaður Ísorku segir fyrirtækið vera að koma sér í einokunarstöðu um miðlun rafmagns til rafbíla.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.