Handbolti

Sigurbergur byrjar ekki að spila með ÍBV fyrr en á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurbergur kom til ÍBV 2016.
Sigurbergur kom til ÍBV 2016. vísir/daníel
Handboltamaðurinn Sigurbergur Sveinsson spilar ekkert með ÍBV fyrir áramót vegna hnémeiðsla. Hann setur stefnuna á að vera klár í slaginn á ný þegar keppni í Olís-deildinni hefst aftur í febrúar 2020 eftir landsleikjahléið.

„Ég býst við að vera frá fram að áramótum,“ sagði Sigurbergur í samtali við Vísi í dag.

Hann gekkst undir aðgerð á hné á mánudaginn.

„Það þurfti að fínpússa í hnénu á mér. Það þurfti að gera meira en við vonuðumst eftir, þannig að þetta tekur aðeins lengi tíma. Ég byrja örugglega ekki að spila fyrr en eftir hlé,“ sagði Sigurbergur sem hefur ekkert æft síðustu vikurnar, eftir að ljóst varð að hann þyrfti að fara í aðgerðina.

„Þetta hefur gerst hægt og rólega. Ég hef áður látið gera við þetta.“

Sigurbergur missti talsvert úr í fyrra vegna ökklameiðsla. Hann lék 16 af 22 leikjum ÍBV í Olís-deildinni og síðan alla sjö leiki liðsins í úrslitakeppninni.

„Ökklinn var orðinn góður en þá tók þetta við sem er frekar þreytt. En þetta er víst partur af þessu,“ sagði Sigurbergur.

Hann er fullviss um að Eyjamenn spjari sig án hans.

„Jú, ég held það. Ég held að þetta verði gott og hef fulla trú á því,“ sagði Sigurbergur.

ÍBV tekur á móti Stjörnunni í upphafsleik Olís-deildarinnar klukkan 16:00 á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×