Skoðun

Sturlað stríð

Kolbeinn Marteinsson skrifar
Frá árinu 2016 hafa um 100 manns látist vegna ofneyslu lyfja. Ef 100 iðkendur golfs á Íslandi hefðu látist af slysförum á golfvellinum eða 100 hjólreiðamenn hefðu legið í valnum í umferðarslysum undanfarin fjögur ár væri hér búið að blása í þjóðarátak og setja ný lög og reglugerðir til að hamla gegn þessu. Af einhverjum ástæðum er ekki sami kraftur og krafa um aðgerðir vegna þessara 100 sem nú eru látnir. Kannski vegna þess að þau eru skilgreind sem afbrotamenn við neyslu ólöglegra lyfja.Rannsóknir hafa sýnt að börn sem verða fyrir áföllum í æsku eru mun líklegri til að misnota vímuefni síðar á ævinni. Það er harður dómur ofan á erfiða æsku sem ekki batnar við fordæmingu og útskúfun samfélagsins. Þegar maður er jaðarsettur á botninum þá er leiðin upp nánast ómöguleg. Fíknivandi getur líka hent börn af góðum heimilum sem búið hafa við gott atlæti.Meirihluti fanga situr af sér dóma vegna fíknar og vandamála tengdra henni. Þetta kostar samfélagið mikla fjármuni. Þegar ég var unglingur var unglingadrykkja mikið vandamál. Unglingar í dag drekka minna en eldri kynslóðir en hafa mun greiðari aðgang að ólöglegum vímuefnum. Við náðum árangri gegn unglingadrykkju með forvörnum. Við eigum að gera það sama með önnur vímuefni og um leið kippa fótunum undan skipulögðum glæpahópum. Þá fjármuni sem sparast má nýta í forvarnir og meðferðarúrræði. Stríðið gegn fíkniefnum lýtur sömu lögmálum og önnur stríð þar sem fáir hagnast ævintýralega á meðan börn og saklaust fólk liggur í valnum. Fíkn í ólögleg vímuefni er ekki glæpur fremur en neysla áfengis, heldur heilbrigðisvandamál. Meðhöndlum hana sem slíka.

Tengd skjöl
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.