Golf

Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta daginn á lokamóti FedEx bikarsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Thomas byrjaði mótið með tveggja högga forystu en er nú jafn tveimur öðrum í efsta sæti.
Justin Thomas byrjaði mótið með tveggja högga forystu en er nú jafn tveimur öðrum í efsta sæti. AP/John Amis

Bandaríkjamennirnir Brooks Koepka, Xander Schauffele og Justin Thomas eru jafnir á toppnum eftir fyrsta daginn á Tour Championship sem er lokamótið í úrslitakeppninni um FedEx bikarinn.

Tour Championship er sýnt beint á Stöð 2 Golf og hefst útsendingin í dag klukkan 17.00 og stendur til 22.00 í kvöld.

Efstu menn eru allir á tíu höggum undir pari en þeir léku þó ekki þennan fyrsta hring á sama skori. Kylfingar komu nefnilega inn á þetta móti með „forgjöf“ út frá árangri þeirra á mótinu á undan.

Justin Thomas kom því inn í mótið á -10, Brooks Koepka á -7 og Xander Schauffele á -4. Xander Schauffele lék því þeirra best á fyrsta hring en hann kláraði hann á 64 höggum eða sex höggum undir pari.Brooks Koepka lék á þremur höggum undir pari en Justin Thomas var ekki alveg jafnheitur og um síðustu helgi og kláraði fyrstu átján holurnar á parinu.

Rory McIlroy minnti líka á sig með því að leika fyrsta hringinn á fjórum höggum undir pari og er því aðeins einu höggi á eftir þremur efstu mönnum á níu höggum undir pari. Næstu menn eru síðan þeir Matt Kuchar og Patrick Cantlay á átta höggum undir pari.

Aðeins þrjátíu efstu á stigalistanum unnu sér þátttökurétt á þessu lokamóti en í boði eru fimmtán milljónir dollara, 1,9 milljarða íslenskra króna, fyrir sigurvegarann. Verðlaunafé sigurvegarans hækkað um fimm milljónir dollara milli ára.

Brooks Koepka er líklegur til að enda frábært ár á frábæran hátt. Hann varð í öðru sæti á Mastersmótinu, vann PGA meistaramótið, varð annar á Opna bandaríska mótinu og lenti síðan í fjórða sætinu á Opna breska. Hann hefur alls unnið fjögur risamót frá árinu 2017 og er í efsta sæti á heimslistanum.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.