Skoðun

Af jörðu munt þú aftur upp rísa

Lind Einarsdóttir skrifar
Fyrir 5 árum síðan andaðist móðir mín og eins venjan er, fór útför hennar fram með hefðbundnum hætti, þ.e.a.s. að hún varð jarðsett í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Ég er búsett í Danmörku, ég kem heim til Íslands tvisvar til þrisvar á ári, og í hvert skipti sem ég heimsæki leiðið hennar, verð ég jafn hissa á því hversu hratt kirkjugarðurinn stækkar og hversu stórt landsvæði hann nýtir. Ég hugsa þá oft, hvernig verður þetta eftir 10 ár, 50 ár, 100 ár?  Næsta hugsun í framhaldi er svo alltaf; „hvað með allar umbúðirnar sem liggja í jörðinni“. Eru þær allar umhverfisvænar, hversu langan tíma tekur fyrir þær að brotna niður, og hversu mikil mengun stafar af urðun af; líkkistum, sængum, koddum, líkklæðum, og innri klæðningu kistunnar? Oft eru þetta gerviefni eins og polyester efni unnið úr olíu sem brotnar hægt og illa niður i náttúrunni.

Syrgjendur vilja að sjálfsögðu allt það besta fyrir þann sem þeir kveðja, og fæstir hugsa um umhverfisáhrif á þessum tímamótum. Hefðir í kringum andlát hafa fylgt mannkyninu lengi og víða er það hefð að grafa hinn látna í jörð.

Er ekki komin tími á að við endurskoðum þetta ferli? Hvernig væri að breyta háttum og hugsa nýtt, og bjóða upp á fleiri möguleika, eins og t.d. að planta tré fyrir hvern látinn einstakling? Í staðin fyrir hefðbundna jarðarför með öllu tilheyrandi, væri hægt að planta tré fyrir hvern einstakling. Kirkjugarðarnir gætu þannig eftir 10 ár, 50 ár eða 100 ár orðið að fallegum skógi og kannski að skemmtilegu útivistarsvæði sem gaman væri að heimsækja fyrir alla aldurshópa. Ég sé fyrir mér, börn að leik, jafnvel að klifra í trjánum. Að sjálfsögðu væri hægt að setja lítið minnismerki við hvert tré – til heiðurs þeirri persónu, sem með jarðneskum leifum sínum gefur jörðinni lengri líftíma.

Myndi svona möguleiki, í orðsins fyllstu merkingu ekki fullkomna orðin úr 1. Mósebók "Af jörðu ertu kominn, Að jörðu skaltu aftur verða. Af jörðu munt þú aftur upp rísa" (3.19)?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×