Handbolti

Gísli skoraði tvö þegar Kiel tryggði sér sæti í átta liða úrslitum á HM félagsliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Gísli Þorgeir Kristjánsson. Getty/Martin Rose
Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í þýska handboltaliðinu Kiel komust í dag áfram á heimsmeistarakeppni félagsliða sem fer fram þessa dagana í Dammam í Sádi-Arabíu.

Kiel liðið tryggði sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar með fjórtán marka sigri á Sydney University frá Ástralíu, 41-27. Kiel mætir Zamalek SC frá Egyptalandi í átta liða úrslitunum á morgun.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk í leiknum en markahæstur hjá Kiel var Rune Dahmke með níu mörk og þá skoruðu Svíinn Lukas Nilsson og línumaðurinn Patrick Wiencek báðir fimm mörk.

Gísli Þorgeir er að koma til baka eftir að hafa farið í aðgerð eftir HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar. Bæði mörk Gísla í leiknum komu í síðari hálfleik. Hann nýtti bæði skotin sín, átti einnig eina stoðsendingu og fiskaði eitt víti samkvæmt opinberri tölfræði leiksins en Gísli spilaði í rúmar tuttugu mínútur í þessum leik.

Kiel getur mætt Aroni Pálmarssyni og félögum í Barcelona komist liðið alla leið í úrslitaleikinn en líklegir mótherjar í undanúrslitunum er lið RK Vardar frá Norður-Makedóníu sem vann Meistaradeildina síðasta vor.

Kiel vann fyrri hálfleikinn 23-18 og keyrði síðan yfir ástralska liðið í síðari hálfleik sem Kiel vann 18-9.

Heimsmeistarakeppni félagsliða, eða IHF Super Globe eins og hún heitir, fer nú fram í þrettánda skiptið. Kiel vann hana í fyrsta og eina skiptið árið 2012 en Barcelona hefur unnið hana tvö undanfarin ár og alls fjórum sinnum á síðustu sex árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×