Handbolti

Vignir tók sig í gegn: „Fann að ég gat ekki verið áfram í þessu sporti í þessari stærð“

Vignir Svavarsson er kominn aftur heim í uppeldisfélagið Hauka eftir að hafa leikið sem atvinnumaður í bæði Þýskalandi og Danmörku.

Vignir samdi svo við Hauka í sumar en síðastliðið ár hefur hann tekið sig rækilega í gegn. Hann hefur misst tugi kílóa og hefur sjaldan verið í betra formi.

„Ég var orðinn frekar þungur og var búinn að vera það lengi. Ég fann að ég gat ekki verið í þessu sporti áfram í þessari stærð,“ sagði Vignir í samtali við Guðjón Guðmundsson.

„Ég var farinn að togna óþarflega mikið í kálfum og aftan í læri, aumur í hásinum og ég veit ekki hvað og hvað. Ég tók smá syrpu og tók til í ísskápnum og missti nokkur kíló.“

En hvað var Vignir eiginlega orðinn þungur?

„Þyngri en ég er núna. Ætli ég hafi ekki verið orðinn 122-123 kíló.“

Vignir líst vel á tímabilið sem framundan er hjá Haukum en hann segir að leikirnir sem liðið hefur spilað hingað til hafa bæði verið jákvæð og neikvæð teikn á lofti.

„Undirbúningstímabilið er alltaf áhugavert, það er búið að vera upp og ofan. Við erum búnir að gera suma hluti góða en aðra ekki svo góða. Við erum stanslaus að reyna betrumbæta okkar leik.“

Á laugardaginn spila Haukar við Plzen á laugardaginn er liðin mætast í fyrri leiknum í EHF-bikarnum. Vigni líst vel á verkefnið.

„Þetta verður alls ekki auðvelt og þurfum að sýna okkar allra besta til þess að ná sem bestu úrslitum úr þessum leikjum,“ sagði Vignir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×