Skoðun

Spilað með tilfinningar kaupenda í Árskógum

Kolbrún Baldursdóttir skrifar
Í tilkynningu til kaupenda íbúða í Árskógum 1-3 frá Félagi eldri borgara (FEB) vegna 400 m.kr. viðbótarkostnaðar sem kaupendum var gert að greiða má sjá hvernig reynt er að spila með tilfinningar þeirra í því skyni að fá þá til að samþykkja viðbótargreiðsluna. Reynt er að vekja upp meðvirkni og samviskubit hjá kaupendunum gagnvart FEB með því að segja „að virkni samtakanna væri stefnt í voða ef félagið lendir í erfiðum og löngum málaferlum við félagsmenn sína“ eins og segir í tilkynningunni.

Einnig segir „að meirihluti hafi samþykkt að greiða og almennt hafi fólk sýnt málinu skilning“. Með þessu er verið að þrýsta á þá sem eiga eftir að greiða viðbótargreiðslu um að sýna því skilning. Reynt er að vekja upp einhvers konar þakklætistilfinningu hjá kaupendum með því að minna á að margir hafi haft áhuga á að kaupa íbúðirnar, enda undir markaðsverði. Segir í tilkynningunni „Þegar framkvæmdir hófust hafi rúmlega fjögur hundruð félagsmenn lýst yfir áhuga“. Tilgangurinn er augljós, að láta þá sem ætla að kanna rétt sinn fá samviskubit og upplifa sig vanþakklát.

Ekki vera með vesen!

Kaupendur, sumir með þinglýsta kaupsamninga, voru grunlausir um hvað biði þeirra og einhverjir komnir langleiðina með að flytja inn. Áfallið er því mikið. Skyndilega er fótunum kippt undan hópi eldri borgara sem eru fullir tilhlökkunnar. Afleiðingar eru trúnaðarbrestur gagnvart FEB og fjárhagsáhyggjur þar sem ekki allir eldri borgarar eiga 5-7 m.kr. í handraðanum.

Í ofanálag er reynt að láta þá sem ekki eru tilbúnir að láta valta yfir sig fá samviskubit og líða illa vilji þeir kanna rétt sinn. Í tilkynningunni er ekkert minnst á „skekkjuna“, mistökin sem leiddu til viðbótarkostnaðarins og hverjir bera ábyrgð á honum. Þeir sem bera ábyrgðina eiga auðvitað að axla hana. Ég spyr hvernig framkoma er þetta eiginlega?

Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×