Skoðun

Reginmisskilningur um EES-samninginn

Andrés Pétursson skrifar
Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi hefur hafið mikla herferð gegn EES-samningum í fjölmiðlum að undanförnu. Ekki veit ég á hvaða vegferð bæjarstjórinn er eða hvaða tilgangi þessi skrif hans þjóna. Þau þjóna að minnsta kosti ekki atvinnulífinu og almenningi í landinu því fátt hefur veitt almenningi og fyrirtækjum á Íslandi meiri búbót undanfarin 25 ár en þessi samningur. Þó er ljóst að þetta er hluti af skipulagðri herferð andstæðinga samningsins og tengist baráttunni gegn innleiðingu ákveðinna gerða sem tengjast orkulöggjöf EES.

Elliði heldur því fram að EES-samningurinn sé ekkert annað en undirbúningur fyrir ESB-aðild. Þetta er reginmisskilningur. Evrópusambandið var í kringum 1990 tilbúið að gera mjög hagstæðan samning við EFTA-löndin til þess að koma í veg fyrir að þau myndu sækja um aðild að ESB. Sambandið taldi sig á þeim tíma ekki vera tilbúið að taka við nýjum aðildarríkjum vegna sameiningar Þýskalands og breytinga í A-Evrópu. Finnland, Svíþjóð og Austurríki ákváðu samt að ganga til liðs viði ESB. Noregur, Lichtenstein og Ísland njóta hins vegar góðs af EES-samningnum og tugþúsundir Íslendinga hafa tekið þátt í samstarfsverkefnum á sviði rannsókna, vísinda, mennta og menningar þökk sé þessu samstarfi.

Eins og andstæðingum EES-samningsins er oft tamt að gera þá skautar Elliði fram hjá öllum kostum samningsins og gefur í skyn að við séum nytsamir sakleysingjar sem hið vonda Evrópusamband sé að véla til sín með öllum hugsanlegum ráðum. Staðreyndin er hins vegar sú að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi á okkur forsendum því hagsmunum okkar er betur borgið á þennan hátt. Látum ekki pólitíska stundarhagsmuni ákveðinna afla í landinu blinda okkur sýn. Nóg er búið að birta af bulli í tengslum við þriðja orkupakkann þótt ekki sé höggvið að rótum EES-samningsins og framtíð hans stefnt í hættu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×