Lífið

Lág­vaxinn maður trylltist þegar kven­kyns starfs­maður brosti til hans

Sylvía Hall skrifar
Manninum var ekki skemmt.
Manninum var ekki skemmt. Skjáskot
Myndband af manni í beyglubúð hefur farið líkt og eldur um sinu á netinu fyrir þær sakir að maðurinn missir stjórn á skapi sínu eftir að kvenkyns starfsmaður brosir til hans. Sagði hann hana vera gera lítið úr hæð sinni en maðurinn er 152 sentimetrar á hæð.

Viðskiptavinir búðarinnar reyndu að róa manninn niður en það gerði lítið gagn þar sem maðurinn virtist einungis verða reiðari og reiðari. Hann talaði um reynslu sína á stefnumótaforritum og sagði konur þar senda honum ljót skilaboð um hæð hans.

„Af hverju er það í lagi fyrir konur að segja: „Ó þú ert 155 á hæð – þú ættir að deyja“ á stefnumótasíðum? Það er í lagi?,“ sagði maðurinn. Kona í búðinni spyr hann hver hafði sagt þetta við hann í búðinni og sagði hann þetta eiga við um konur almennt.

„Heldur þú að ég sé að búa þetta til? Hvert sem ég fer fæ ég sama glottið.“

Þegar aðrir viðskiptavinir reyndu að skerast í leikinn brást maðurinn ókvæða við og sagði þeim ýmist að halda kjafti eða bauð þeim að „stíga út fyrir“ með sér. Ítrekaði hann að hann væri ekki hræddur við þá karlmenn sem reyndu að róa hann niður.

Það fór ekki betur en svo að einn maðurinn tæklar hann, heldur honum á jörðinni og segir honum að róa sig niður.

„Þú talar ekki svona við fólk,“ sagði hann við manninn á meðan hann lá í jörðinni.

Maðurinn hélt þó eldræðu sinni áfram um nokkurn tíma áður en honum var vísað úr búðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×