Skoðun
Sigurður Hannesson, 
framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins

Orkuspá missir marks

Sigurður Hannesson skrifar

Daglegt líf okkar er háð notkun raforku og því mikilvægt að sú grunnstoð sem raforkukerfið er standi traustum fótum og sé áreiðanlegt. Byggja þarf ákvarðanir á sem bestum upplýsingum hverju sinni og á skýrri framtíðarsýn. Slíkar ákvarðanir eru ekki einkamál opinberra aðila eða stjórnvalda heldur þarf samtal við notendur svo unnt sé að leggja mat á raforkuþörf til lengri tíma. Þannig má draga úr líkum á raforkuskorti, raforkuskerðingum eða öðru skaðlegu inngripi í dagleg störf heimila og fyrirtækja í landinu. Á þessu er misbrestur enda byggja ákvarðanir ekki á bestu upplýsingum þar sem ekki er rætt við notendur um þeirra áform.

Eftirspurn eftir raforku fer vaxandi með aukinni fólksfjölgun, orkuskiptum og auknum umsvifum í atvinnulífinu. Undanfarna daga hefur forstjóri Landsnets vakið athygli á yfirvofandi hættu á orkuskorti með tilheyrandi skerðingum. Önnur orkufyrirtæki hafa tekið undir þetta. Vinna við raforkuspá er í höndum Orkustofnunar sem gefur út nýja orkuspá árlega. Ekki er rætt við notendur um þeirra áform og því hefur spáin misst marks undanfarin ár.

Óhætt er að taka undir gagnrýni forstjóra Landsnets á umrædda starfshætti og slagsíðu varðandi orkuspána. Slíkt tómlæti – að ræða ekki við notendur – getur ekki annað en orsakað ósamræmi á milli opinberrar raforkuspár og raunverulegrar raforkuþarfar notenda. Því þarf að breyta. Það blasir við að slík raforkuspá missi marks og ákvarðanir byggðar á orkuspánni leiði til orkuskorts. Slíkar skerðingar munu óhjákvæmilega þýða rask á daglegu lífi landsmanna og minni sköpun verðmæta, sem bitnar á lífsgæðum landsmanna til lengri tíma litið.

Stefnur stjórnvalda og áherslur sem tengjast orkunotkun þurfa að tala saman og taka um leið tillit til stigvaxandi orkuþarfar jafnt atvinnulífs sem heimila í landinu. Eins þarf að tryggja, eins og forstjóri Landsnets bendir á, að ábyrgð á nægjanlegu afli sé skýr og hafi skilvirkni raforkukerfisins að leiðarljósi. Úrbóta er sannarlega þörf.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarinsAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.