Skoðun
Jón Sigurður Eyjólfsson

Harmleikur með kaffinu

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar

Á sunnudagsmorgun féll ég í þá freistni, klukkan átta að morgni, að kveikja á imbanum og fylgjast með nautahlaupi á San Fermín hátíðinni í Pamplona. Mér varð hugsað til Hemingways en lét þó vera að fá mér einn gráan. Svo flaug rakettan upp í bláan himininn, hliðið var opnað og naut með allt á hornum sér hlupu af stað. Fljótlega hélt einn hlauparinn um horn eins þeirra og hékk þar nokkurn spöl rétt eins og hann væri að húkka að hætti bílddælskra barna hér í denn sem reyndar héngu aftan í skrjóðum. Mér svelgdist ekki á kaffinu enda slapp húkkarinn frá Pamplona furðu vel af hornum þessum.

Skepnurnar hlaupa niður götuna en fólkið flýr undan eða hallar sér upp að vegg. Allt í einu gengur maður í hægðum sínum fyrir hjörðina. Ekki veit ég hvað honum gekk til. Það skiptir engum togum að boli vippar honum á loft og kemur kappinn niður á herðarnar. Ekki veit ég meira um örlög þessa manns. Kannski vill svo heppilega til að hann verði á barnum um næstu helgi að segja reynslusögur, jafnvel svæsnari en hraðlyginn Vestfirðingur hefur upp á að bjóða. En kannski stígur hann ekki meira í lappirnar það sem eftir lifir ævi, kannski er ástand hans enn verra svo það minni okkur á ófarir Christophers Reeve. Kannski var ég að horfa á hræðilegan harmleik meðan ég sötraði kaffið. Ég sem er vanur að vera að skokka eða lesa á þessum tíma dags. Það er greinilega satt hjá Guðrúnu Ósvífursdóttur, morgunverkin geta verið æði misjöfn.

Það fór um mig þegar ég sá atvikið í hægri endursýningu. Svo hætti ég að hugsa um þetta, enda komið að yfirliti frétta.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.