Körfubolti

Ekkert til í því að Stjarnan sé að semja við Amin Stevens

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amin Stevens var illviðráðanlegur í íslensku deildinni.
Amin Stevens var illviðráðanlegur í íslensku deildinni. vísir/ernir

Amin Stevens átti að vera á leiðinni til Stjörnunnar fyrir komandi tímabil í Domino´s deild karla í körfubolta samkvæmt kjaftasögum í íslenska körfuboltaheiminum en innanbúðarmenn í Garðabænum kannast ekkert við það.

Hilmar Júlíusson, formaður Körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, segir ekkert til í þeim sögum að félagið sé að semja við bandaríska miðherjann Amin Stevens.

„Hann er ekki á leiðinni til Stjörnunnar,“ staðfesti Hilmar við Vísi í morgun. Stjörnumenn eru enn að leita sér að nýjum bandarískum leikmanni fyrir komandi tímabil.

Það er ljóst að það væri stórfrétt ef deildar- og bikarmeistararnir væru að fá svo öflugan leikmann til sín eða að einhverju öðru íslensku félagi tækist að fá þennan 200 sentímetra kappa aftur í íslensku deildina.

Amin Khalil Stevens hefur spilað eitt tímabil í Domino´s deildinni og var þá valinn besti erlendi leikmaður deildarinnar.

Stevens var með 28,6 stig og 16,0 fráköst að meðaltali með Keflavíkurliðinu veturinn 2016 til 2017. Hann var efstur á Íslandsmótinu í stigum í leik, fráköstum í leik og framlagi í leik.

Stevens hefur síðan spilað með Rouen í Frakklandi (2017-18) og Brussels í Belgíu (2018-19). Amin Stevens var með 13,6 stig og 7,4 fráköst að meðaltali í Belgíu en 18,1 stig og 9,1 frákst að meðaltali í b-deildinni í Frakklandi.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.