Handbolti

Íslensku stelpurnar skoruðu tíu fyrstu mörkin og rúlluðu upp Bretunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stelpurnar í 19 ára landsliðinu.
Stelpurnar í 19 ára landsliðinu. Mynd/HSÍ

Íslenska nítján ára landslið kvenna í handbolta spilar um fimmta til áttunda sæti í B-deild Evrópukeppninnar eftir 27 marka sigur á Bretum í dag, 39-12, í lokaleik sínum í riðlakeppninni.

HK-ingurinn Tinna Sól Björgvinsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með átta mörk en hún skoraði öll mörkin sín í fyrri hálfleiknum. Tinna Sól var valinn besti leikmaður vallarins.

Sigurinn tryggði stelpunum þriðja sætið í riðlinum á eftir Serbíu og heimastúlkum í Búlgaríu. Ísland mætir Finnlandi í næsta leik og spilar um fimmta sætið í mótinu vinni liðið hann.

Alls skoruðu sex leikmenn íslenska liðsins fjögur mörk eða meira í leiknum en Lena Margrét Valdimarsdóttir var næstmarkahæst með sex mörk og Þóra María Sigurjónsdóttir skoraði fimm mörk.

Íslensku stelpurnar höfðu tapað tveimur leikjum í röð en mættu grimmar til leiks í dag og þær bresku áttu aldrei möguleika.

Íslenska liðið skoraði tíu fyrstu mörk leiksins og hélt hreinu fyrstu fjórtán mínútum leiksins. Ísland var 18-6 yfir í hálfleik og var 30-9 yfir þegar fimmtán mínútur voru eftir.

Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins eftir nokkrar sekúndur og gaf síðan fimm stoðsendingar á félaga sína á meðan íslenska liðið komst í 10-0. Tinna Sól Björgvinsdóttir var komin með fimm mörk eftir aðeins átta mínútna leik.

Það var strax ljós í hvað stefndi og íslensku stelpurnar bætti við forystuna allan leikinn. Á endanum munaði 27 mörk á liðunum tveimur.

Mörk íslenska liðsins í leiknum:
Tinna Sól Björgvinsdóttir 8
Lena Margrét Valdimarsdóttir 6
Þóra María Sigurjónsdóttir 5
Katla María Magnúsdóttir 4
Auður Ester Gestsdóttir 4
Berta Rut Harðardóttir 4
Anna Karen Hansdóttir 3
Birta Rún Grétarsdóttir 2
Harpa María Friðgeirsdóttir 2
Alexandra Líf Arnarsdóttir 1Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.