Handbolti

Færir sig á milli Akureyrarliðanna og er aftur kominn heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haddur Júlíus Stefánsson, formaður Handknattleiksdeildar KA og Patrekur Stefánsson handsala samninginn.
Haddur Júlíus Stefánsson, formaður Handknattleiksdeildar KA og Patrekur Stefánsson handsala samninginn. Mynd/KA
Patrekur Stefánsson er aftur orðinn leikmaður KA í handboltanum. Hann skrifaði undir samning við félagið í gær.

Patrekur Stefánsson skrifaði undir tveggja ára samning við Handknattleiksdeild KA og er að snúa aftur til síns uppeldisfélags.

Patrekur hefur ekki spilað áður með meistaraflokki KA en Patrekur er engu að síður uppalinn hjá KA. Hann steig sín fyrstu spor í meistaraflokki með Akureyri Handboltafélagi og fór ekki yfir í KA þegar þeir gulu slitu samstarfinu vorið 2017.

Patrekur var með 3,1 mark og 1,4 stoðsendingu að meðaltali í leik með Akureyri í Olís deildinni í vetur en liðið féll úr deildinni.

Patekur skoraði 51 mark í 17 leikjum þegar Akureyri fór upp úr Grill 66 deild karla vorið 2018.

„Á síðasta tímabili var hann einn markahæsti leikmaður Akureyrar í Olís deildinni sem og tímabilið áður er liðið tryggði sér sæti í Olís deildinni. Það er ljóst að koma Patreks eru mikil gleðitíðindi og mun klárlega styrkja okkar öfluga lið sem ætlar sér enn stærri hluti á komandi vetri,“ segir í fréttatilkynningu frá KA.

KA-menn fengu einnig Daníel Örn Griffin frá ÍBV fyrr í sumar og hafa því verið að styrkja liðið sitt fyrir átökin næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×