Handbolti

Afturelding vill selja nafnréttinn

Benedikt Bóas skrifar
Stuð í Varmá en það nafn gæti heyrt sögunni til.
Stuð í Varmá en það nafn gæti heyrt sögunni til. Fréttablaðið/Ernir

Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt með þremur atkvæðum að fela Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að ræða við fulltrúa Aftureldingar um fyrirkomulag merkinga á íþróttamannvirkjum og að niðurstaðan verði kynnt bæjarráði. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs í gær.

Afturelding óskaði eftir heimild bæjarráðs til að hefja viðræður við aðila sem hafa áhuga á því að gera auglýsingasamning við félagið um nöfn íþróttamannvirkja að Varmá. Samkvæmt bréfi félagsins til bæjarráðs vill Afturelding feta í fótspor annarra íþróttafélaga sem hafa gert viðlíka styrktarsamninga. Samkvæmt bréfinu er áhugi á að gera slíkan samning en félagið vill tryggja að það sé gert í fullu samráði við Mosfellsbæ.

„Í dag hafa nær öll íþróttafélög í efstu deildum í hópíþróttum á Íslandi gert slíka samstarfssamninga. Fyrir nokkrum árum var í gildi samningur á milli Aftureldingar og fyrirtækisins N1 sem fól í sér að íþróttahúsið að Varmá bar heitið „N1 Höllin“. Fordæmi er því til staðar innan Mosfellsbæjar,“ segir í bréfinu.

Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í bæjarráði bókaði að hann teldi það ekki góða þróun ef styrktarsamningur á milli Aftureldingar og einkafyrirtækis leiði til nafnbreytingar á skóla- og íþróttamannvirkjunum að Varmá sem séu alfarið í eigu Mosfellsbæjar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.