Golf

Haraldur annar og Axel þriðji í Svíþjóð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Axel og Haraldur gerðu góða hluti í Svíþjóð.
Axel og Haraldur gerðu góða hluti í Svíþjóð. vísir/andri marinó
Íslenskir kylfingar enduðu í 2. og 3. sæti á Camfil Nordic Championship mótinu í golfi sem fór fram í Svíþjóð. Mótið er hluti af Nordic Golf mótaröðinni.

Haraldur Franklín Magnús lenti í 2. sæti á ellefu höggum undir pari. Hann var tveimur höggum á eftir sigurvegaranum, Christopher Sahlström frá Svíþjóð. Axel Bóasson varð þriðji á tíu höggum undir pari.

Haraldur lék á einu höggi undir pari á þriðja hringnum í dag. Sahlström lék hins vegar á fimm höggum undir pari og fór upp fyrir Harald sem jafnaði þó sinn besta árangur á Nordic Golf mótaröðinni í ár með því að lenda í 2. sætinu.

Axel lék á þremur höggum undir pari í dag. Hann var jafn Sander Aadusaar frá Eistlandi í 3. sætinu. Þetta er besti árangur Axels á Nordic Golf mótaröðinni í ár.

Andri Þór Björnsson endaði í 46. sæti á fjórum höggum yfir pari.

Haraldur er í 7. sæti á stigalista mótaraðarinnar en Axel í 26. sætinu. Guðmundur Ágúst Kristjánsson er þriðji á eftir áðurnefndum Sahlström og landa hans, Fredrik Niléhn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×