Handbolti

Elvar á leið í eina bestu deild heims: Ég er hvergi banginn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elvar Ásgeirsson úr Aftureldingu verður einn af átta Íslendingum í þýsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Elvar samdi fyrr í vetur við Stuttgart í úrvalsdeildinni en sú þýska er af mörgum talin besta deild heims. Þetta er mikil áskorun fyrir Elvar sem hefur leikið alla sína tíð í Mosfellsbænum.

„Þetta er mjög spennandi að takast á við þetta. Maður vill fá alvöru áskoranir og þetta er ein af þeim stóru,“ sagði Elvar við Guðjón Guðmundsson.

„Mér leist mjög vel á allar aðstæður og allt í kringum félagið. Það er töluvert af breytingum í leikmannamálum en þeir sem fyrir eru leist mér vel á. Þeir hafa verið að sækja flotta leikmenn,“ en er ekkert stress í honum að fara leika í bestu deild heims?

„Auðvitað er smá stress en það er eðlilegt þegar maður tekur svona stórt skref. Spennan er aðeins meira en stressið. Ég er hvergi banginn og spenntur að fara bæta mig sem leikmaður.“

Stuttgart endaði í 15. sæti deildarinnar en Elvar segir að markmið liðsins á næstu árum sé að gera enn betur.

„Þeir eru búnir að halda sér í deildinni á síðustu fjórum árum og markmið liðsins er að bæta ofan á það, frá ári til árs. Þeir enduðu illa í ár en þeir vilja gera betur og geirnegla sig í úrvalsdeildinni,“ sagði Elvar.

Í spilaranum hér að ofan ræðir Elvar meðal annars um landsliðsdrauma og nánar um Stutgart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×