Skoðun

Hafnarfjörður í forystu í aukinni sjálfbærni í skipulags- og byggingarmálum

Ólafur Ingi Tómasson skrifar
Minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda er mál sem ekki fyrir svo löngu síðan komst í hámæli. Við Hafnfirðingar höfum tekið umhverfismálin alvarlega m.a. með metnaðarfullri umhverfis- og auðlindastefnu þar sem tekið er á flestum málum er varða verndun og betri umgengni við umhverfið auk aðgerðaáætlunar varðandi stefnu Hafnarfjarðar um umhverfis- og auðlindamál.

Vistvænar framkvæmdir í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 29. maí tillögur að aðgerðum til að hvetja húsbyggjendur til að setja umhverfið í forgang í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, auknar kröfur um minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og aukna umhverfisvitund almennings. Tillögurnar fjalla m.a. um að djúpgámar verði á öllum uppbyggingarsvæðum auk þess sem gert verði ráð fyrir þeim við endurskoðun á skipulagsskilmálum í eldri hverfum. Samþykkt voru ákvæði um endurvinnslu úrgangs á framkvæmdarstað, að minnsta kosti 20% byggingarefna í nýframkvæmdum skuli hafa umhverfisvottun og að Hafnarfjarðarbær móti sér stefnu um vottun (BREEAM, Svanurinn eða sambærilegt) allra nýbygginga á vegum sveitarfélagsins. Samþykkt var að innleiða hvata til framkvæmdaraðila til þess fá Svansvottun, BREEAM-vottun eða sambærilegt á nýbyggingar, meðal annars í formi afsláttar af lóðaverði. Samþykkt var að afsláttur af lóðarverði vegna Svansvottaðs húss verði 20%, að byggingar með BREEAM-einkunn „Very good“ 55% fái 20% afslátt af lóðarverði og við BREEAM-einkunn „Excellent“ 70% verði afsláttur af lóðarverði 30%. Þá samþykkti bæjarstjórn jafnframt að Hafnarfjörður gerist aðili að Grænni byggð.

 

Í stóra samhenginu

Samþykkt bæjarstjórnar er einkar ánægjuleg en e.t.v. lítið skref í stóra samhenginu um umhverfisvernd en lýsir vilja bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í umhverfismálum. Í stóra samhenginu þar sem byggingar og byggingariðnaðurinn á heimsvísu er talinn ábyrgur fyrir um 25%-35% losunar gróðurhúsalofttegunda má e.t.v. segja að samþykkt okkar í Hafnarfirði megi sín lítils en eins og máltækið segir „margt smátt gerir eitt stórt“, þannig munum við ná árangri í umhverfismálum.




Skoðun

Sjá meira


×