Skoðun

Klifurjurtir

Arnar Tómas Valgeirsson skrifar
Á þrítugsafmælisdegi mínum snyrti ég eyrna­hárin mín í fyrsta skipti. Það var frekar einföld en sálfræðilega þrúgandi athöfn sem setti mig í umtalsverða krísu. Eftir að hafa lesið ótal hjörtum skreyttar Facebook-færslur frá eldri konum um að aldurinn sé afstæður gaf líkaminn mér skýr skilaboð um að svo sé ekki. Klifurjurtir ellinnar klöngruðust hægt en bítandi út úr eyrunum á mér og minntu mig á feigðina.Eftir að ég hafði klippt þau fann ég fyrir að þau voru strax byrjuð að vaxa aftur, hraðar en mér þótti gott. Eyrnahár voru fyrir mér eitthvað sem menn á sjötugsaldri, líkt og pabbi minn, þurfa að gefa gætur en hingað voru þau komin, langt á undan áætlun.Krísan stóð þó stutt yfir því að um kvöldið var haldin veisla þar sem vinir og vandamenn voru komnir til að fagna hrörnun minni. Mannskapurinn hafði töluvert aðrar hugmyndir en ég um hvert ég væri kominn á lífsleiðinni. Þau færðu mér gjafir, þar á meðal Nintendo-leikjatölvu og hlaupahjól. Gjafir sem gefnar eru sjö ára grunnskólabörnum. Þær hittu þó beint í mark og þótt markhópur þeirra sé ef til vill í yngri kantinum fann ég engu að síður fyrir miklum þroskakipp sem stendur enn yfir.Ég þurfti ekki á innantómum hvatningarverkfærum samfélagsmiðlanna að halda til að ljúga að mér að ég sé ekki að eldast. Ég þurfti bara staðfestingu á að það sé allt í lagi, og ég er þegar byrjaður að gúgla öflugri eyrnaklippur.

Tengd skjöl
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.