Golf

Woodland lék best á öðrum hringnum og er með forystuna á Opna bandaríska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Woodland lék annan hringinn á sex höggum undir pari.
Woodland lék annan hringinn á sex höggum undir pari. vísir/getty
Gary Woodland er með tveggja högga forystu eftir annan hringinn á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Leikið er á hinum sögufræga Pebble Beach velli í Kaliforníu.Hinn bandaríski Woodland lék manna best á öðrum hringnum og komst upp í efsta sætið. Hann lék á sex höggum undir pari og er samtals á níu höggum undir pari. Woodland kláraði hringinn með frábæru pútti fyrir fugli.Woodland jafnaði met Justins Rose frá því á fyrsta hring mótsins og Tiger Woods frá 2000. Þeir eru þeir einu sem hafa leikið á sex höggum undir pari á Opna bandaríska á Pebble Beach.Rose, sem var með eins höggs forystu eftir fyrsta hringinn, er annar á sjö höggum undir pari. Englendingurinn lék vel á fyrri níu holunum en fékk tvo skolla á seinni níu.Louis Oosthuzien er í 3. sæti á sex höggum undir pari. Annar hringurinn var skrautlegur hjá Suður-Afríkumanninum sem fékk sjö fugla og sex skolla.Bandaríkjamaðurinn Aaron Wise og Norður-Írinn Rory McIlroy eru jafnir í 4. sætinu á fjórum höggum undir pari.Brooks Koepka, sem hefur unnið Opna bandaríska undanfarin tvö ár, er 6. sætinu á fjórum höggum undir pari.Tiger fékk tvo skolla á síðustu tveimur holunum og lék á einu höggi yfir pari. Hann er í 32. sæti á parinu.Rickie Fowler átti afleitan hring, lék á sex höggum yfir pari og datt niður í 45. sætið.Bein útsending frá þriðja hring Opna bandaríska hefst klukkan 18:30 á Stöð 2 Golf.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.