Golf

Guð­rún Brá efst eftir fyrsta hring í Marokkó

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir átti glimrandi fyrsta hring á móti sem hefur mikið um næsta ár að segja.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir átti glimrandi fyrsta hring á móti sem hefur mikið um næsta ár að segja. Getty/Charles McQuillan

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, er jöfn í efsta sæti eftir fyrsta hring lokaúrtökumótsins fyrir LET-mótaröðina. Efstu tuttugu kylfingar mótsins vinna sér inn fullan keppnisrétt á LET á næsta ári.

Mótið fer fram dagana 17.-20. desember á tveimur völlum; Royal Golf Marrakech og Al Maaden Golf Marrakech í Marokkó.

Guðrún lék fyrsta hringinn á Al Maaden vellinum, líkt og hinir íslensku kylfingarnir. Hún kom í hús á fimm höggum undir pari, og er jöfn sex öðrum kylfingum í efsta sæti eftir fyrsta daginn.

Guðrún fékk sjö fugla á hringnum og var ein í efsta sæti mótsins fyrir átjándu holu dagsins. Hún hlaut skramba á síðustu brautinni en er þrátt fyrir það á toppnum, ásamt öðrum, líkt og áður segir.

Ragnhildur Kristinsdóttir lék á pari vallar og er jöfn í 67. sæti mótsins eftir daginn. Hún fékk fimm fugla og fimm skolla á hringnum.

Andrea Bergsdóttir er jöfn í 92. sæti mótsins. Hún lék hringinn á einu höggi yfir pari, fékk tvo fugla og þrjá skolla.

Hulda Clara Gestsdóttir lék á fjórum höggum yfir pari og er jöfn í 130. sæti. Hulda fékk fugl á bæði fyrstu og átjándu holu vallar, en fékk fjóra skolla og einn skramba.

Alls taka 155 kylfingar frá 40 þjóðum þátt á mótinu. Að þremur hringjum loknum komast efstu 65 kylfingarnir í gegnum niðurskurð og leika lokahringinn um efstu 20 sætin sem veita fullan keppnisrétt á LET-mótaröðinni á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×