Viðskipti innlent

Samdrátturinn dýpri en spáð hefur verið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Samtök iðnaðarins telja líkur á því að samdrátturinn í efnahagslífinu verði dýpri og vari lengur en nýlegar efnahagsspár hljóða upp á. Brýnt sé að ríkisfjármálin og peningastefna Seðlabankans taki mið af því.

Seðlabankinn og Hagstofa Íslands reikna með því að samdrátturinn verði um 0,2-0,4 prósent í ár en að hagvöxtur verði kominn í 2,4-2,6 prósent strax á næsta ári. Samtök iðnaðarins telja hættu á því að efnahagssamdrátturinn verði meiri í ár og hagvöxturinn minni á næsta ári en gert er ráð fyrir í þessum spám.

Í greiningu samtakanna er bent á að atvinnuleysi hafi aukist umtalsvert en það nam 3,7 prósentum í apríl samanborið við 2,3 prósent í sama mánuði í fyrra. Mjög lítill hagvöxtur hafi mælst á fyrsta fjórðungi þessa árs og líkur séu á því að samdráttur hafi verið talsverður á öðrum ársfjórðungi. Þá berist nú tölur af umtalsverðum samdrætti í fjölda ferðamanna. Þeim fækkaði um 24 prósent í maí í samanburði við sama mánuð í fyrra en Isavia hefur spáð 17 prósenta fækkun á milli 2018 og 2019.

Samtök iðnaðarins nefna að tillagan um breytingu á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, sem er nú til umræðu á Alþingi, byggi á spá Hagstofunnar og grundvallist því á of bjartsýnni spá. Það sé áhyggjuefni því að það auki líkur á að ríkisfjármálunum verði ekki beitt sem skyldi.

Telja samtökin brýnt að lækka stýrivexti Seðlabankans enn frekar til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við samdrátt í efnahagslífinu. Þá séu horfurnar með þeim hætti að rétt sé að reka ríkissjóð með halla. Nú sé rétti tíminn til að draga úr álögum á atvinnulífið og auka við framlög til ýmissa málaflokka.




Tengdar fréttir

Endurskoðuð fjármálastefna er fullbjartsýn að mati SA

Samtök atvinnulífsins telja endurskoðaða fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar of bjartsýna. Forstöðumaður efnahagssviðs SA telur líklegt að á næsta ári þurfi að koma fram með fimmtu stefnuna á fimm árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×