Handbolti

Ekkert lið í sögunni hefur klárað Íslandsmeistaratitilinn með svona stæl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þjálfararnir, Patrekur Jóhannesson og aðstoðarmaður hans, Grímur Hergeirsson, með Íslandsbikarinn.
Þjálfararnir, Patrekur Jóhannesson og aðstoðarmaður hans, Grímur Hergeirsson, með Íslandsbikarinn. Vísir/Vilhelm
Selfyssingar rúlluðu yfir Haukana í gær og tryggðu sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Þetta var ekki aðeins sögulegur fyrsti sigur Selfoss á Íslandsmóti í boltaíþróttum heldur einnig sögulegur sigur í allri úrslitakeppninni.

Ekkert annað lið hefur náð að tryggja sér titilinn með svo stórum sigri síðan að úrslitakeppnin varð að veruleika vorið 1992.

Selfoss vann leikinn með tíu marka mun, 35-25, eftir að hafa verið 16-11 yfir í hálfleik.

Fyrstu þrír leikir einvígsins höfðu unnist samtals með átta marka mun en Selfoss vann fyrsta leikinn með fimm marka mun á Ásvöllum.

Það hefur reyndar verið hefð fyrir því síðustu árin að Íslandsmeistaratitillinn komi í hús eftir öruggan sigur.

Eyjamenn unnu lokaleikinn með átta mörkum í fyrra, 28-20, og Valsmenn unnu oddaleikinn um titilinn með sjö mörkum árið á undan, 27-20.

Eyjamenn jöfnuðu metið með þessum átta marka sigri í fyrra en Haukaliðið frá 2003 og Valsliðið frá 1996 tryggðu sér einnig Íslandsmeistaratitilinn með átta marka sigrum.

Selfyssingar hafa lagt það í vana sinn að vera í spennuleikjum í þessari úrslitakeppni sem sést vel á því að fimm af átta sigrum liðsins í úrslitakeppninni 2019 voru með einu eða tveimur mörkum.

Í gær gekk hins vegar allt upp hjá Selfossliðinu sem toppaði á hárréttum tíma undir stjórn Patreks Jóhannessonar.



Stærsti sigur til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í úrslitakeppni karla:

10 mörk - Selfoss á móti Haukum 2019 (35-25)

8 mörk - ÍBV á móti FH 2018 (28-20)

8 mörk - Haukar á móti ÍR 2003 (33-25)

8 mörk - Valur á móti KA 1996 (25-17)

7 mörk - Valur á móti FH 2017 (27-20)

7 mörk - Haukar á móti Val 2009 (33-26)

5 mörk - Haukar á móti Val 2010 (25-20)

5 mörk - Valur á móti Haukum 1994 (26-21)

4 mörk - FH á móti Akureyri 2011 (28-24)

4 mörk - Haukar á móti ÍBV 2005 (28-24)

4 mörk - Valur á móti Fram 1998 (27-23)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×