Golf

Ólafía snýr aftur á LPGA

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafía keppir á meðal þeirra bestu um helgina
Ólafía keppir á meðal þeirra bestu um helgina vísir/getty
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur leik í dag á sínu fyrsta móti á LPGA mótaröðinni þetta tímabilið. Valdís Þóra Jónsdóttir verður í eldlínunni á Evrópumótaröðinni.

Síðustu tvö ár var Ólafía Þórunn með fullan keppnisrétt á sterkustu mótaröð heims, LPGA, en hún missti hann í lok síðasta árs. Hún er með takmarkaðan aðgang að mótaröðinni í ár en mun núna keppa á tveimur mótum í röð.

Fyrst er komið að Pure Silk meistaramótinu, en hún fékk boð á það mót frá styrktaraðilum. Hún vann sér svo inn þátttökurétt á Opna bandaríska risamótinu sem hefst í næstu viku.

Pure Silk mótið fer fram í Williamsburg í Virginíufylki og tók Ólafía þátt í því síðustu tvö ár en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Ólafía á rástíma klukkan 14:05 að staðartíma, eða 18:05 að íslenskum tíma. Hún hefur leik á tíundu braut og með henni í ráshóp eru Robyn Choi frá Ástralíu og Lee Lopez frá Bandaríkjunum.

Stöð 2 Sport 4 sýnir beint frá mótinu og hefst útsendingin klukkan 20:00.

Valdís Þóra er að spila á sínu níunda móti á Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaraðar Evrópu, og hún er í 72. sæti stigalista mótaraðarinnar.

Hún er á meðal þáttakanda á Jabra Ladies Open mótinu sem er haldið í Frakklandi. Þetta er aðeins þriggja daga mót og verður niðurskurður eftir annan keppnisdag.

Valdís hefur leik klukkan 14:08 að staðartíma, eða 12:08 að íslenskum tíma. Valdís er í ráshóp með Ana Menendez frá Mexíkó og hinni sænsku Filippa Moork.

Ólafía Þórunn er í 444. sæti heimslistans í golfi, en hann var gefinn út í gær. Valdís Þóra er þar rétt fyrir neðan, í 450. sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×