Erlent

Segja matarsóun mun skaðlegri en plastið

Birgir Olgeirsson skrifar
Skotar eru hvattir til að taka sig á þegar kemur að matarsóun.
Skotar eru hvattir til að taka sig á þegar kemur að matarsóun. Vísir/Getty
Matarsóun hefur meiri áhrif á loftslagið heldur en plast, að mati opinberu umhverfisverndarsamtakanna Zero Waste Scotland.

Samtökin hafa hvatt Skota til að draga úr matarsóun, en sá matarafgangur sem fer í ruslið endar í landfyllingu. Þar rotnar maturinn og gefur frá sér metangas sem er sagt ein skaðlegasta gróðurhúsalofttegundin.

Fjallað er um þessi tilmæli Zero Waste Scotland á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Þar segir að könnun Zero Waste Scotland hafi leitt í ljós að Skotar hentu 456 þúsund tonnum af mat árið 2016. Sama ár hentu Skotar 224 þúsund tonnum af plasti.

Hefur Zero Waste Scotland hrundið af stað aðgerðaáætlun ásamt skoskum yfirvöldum með það að markmiði að draga úr matarsóun. Er vonast til að hægt sé að draga úr henni um þriðjung fyrir árið 2025.

Sá sem fer yfir samtökunum heitir Iain Gulland.

„Það kann að hljóma furðulega en að henda afgöngum í ruslið er afar skaðlegt fyrir jörðina, því að afgangarnir sem þú náðir ekki að klára enda í landfyllingu þar sem þeir rotna,“ segir Gulland. „Þegar niðurbrotið á sér stað gefa afgangarnir frá sér metan, sem er margfalt skaðlegar til skamms tíma fyrir loftslagið en koltvísýringur. Matarsóun er í raun stærra vandamál en plastið.“

Hann ítrekaði þó að mikilvægt væri að draga úr plastnotkun sem er einnig grafalvarlegt mál.

Zero Waste Scotland áætlar að hvert skoskt heimili geti sparað 440 pund á ári, sem samsvar tæpum 70 þúsund krónum, með því að draga úr matarsóun. Eru Skotar hvattir til að áætla máltíðir sínar vel og nýta betur möguleikann á að geyma afganga í kæli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.