Körfubolti

505 mánaða bið gæti endað í Seljaskólanum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Orri Sigurðarson fagnar Sigurkarli Jóhannssyni eftir að sá síðarnefndi skoraði sigurkörfuna í leik þrjú.
Matthías Orri Sigurðarson fagnar Sigurkarli Jóhannssyni eftir að sá síðarnefndi skoraði sigurkörfuna í leik þrjú. Vísir/Vilhelm
Laugardaginn 26. mars 1977 tryggðu ÍR-ingar sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í fimmtánda sinn. Þá voru „bara“ 23 ár liðin frá því að sjá fyrsti kom í hús vorið 1954.

Síðan eru liðin 42 ár en Íslandsmeistaratitlarnir hjá ÍR-liðinu eru enn bara fimmtán talsins.

505 mánaða bið ÍR-inga gæti aftur á móti loksins verið á enda í kvöld þegar ÍR-liðið tekur á móti KR í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Domino´s deildar karla.

ÍR er 2-1 yfir í einvíginu og vantar bara einn sigur í viðbót til að tryggja sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í meira en fjóra áratugi.

ÍR hélt upp á 70 ára afmælið sitt fimmtán dögum áður en fimmtándi Íslandsmeistaratitilinn vannst í mars 1977 og var því um úrvals afmælisgjöf að ræða. ÍR varð 112 ára 11. mars síðastliðinn.

Síðasti þjálfarinn til að gera ÍR að Íslandsmeisturum var Þorsteinn Hallgrímsson sem var spilandi þjálfari liðsins veturinn 1976-77. Hann vann þá sinn níunda Íslandsmeistaratitil og lagði skóna á hilluna eftir tímabilið.

Þorsteinn hafði einnig orðið fjórum sinnum danskur meistari og vann því þrettán meistaratitla á átján tímabilum á Íslandi og í Danmörku.

Besti leikmaður ÍR á síðasta meistaratímabili félagsins var án efa Kristinn Jörundsson sem var kosinn besti leikmaður tímabilsins. Hann skoraði meðal annars 35 stig í leiknum þegar ÍR-liðið tryggði sér endanlega titilinn.

Í ÍR-liðinu var einnig Agnar Friðriksson sem þá varð Íslandsmeistari í tíunda skiptið sem ÍR sem er árangur sem aðeins einn karlmaður hefur jafnað (Teitur Örlygsson) en enginn slegið.

Fjórði leikur ÍR og KR hefst klukkan 20.00 í kvöld í Hertz Hellinum í Seljaskóli en útsending Domino´s Körfuboltakvölds byrjar 19.15. Eftir leikinn og í hálfleik munu strákarnir í Körfuboltakvöldi síðan fara yfir gang mála.

Lengsta bið starfandi félaga eftir Íslandsmeistaratitli í körfubolta karla:

43 ár - Ármann (1976-)

42 ár - ÍR (1977-)

36 ár - Valur (1983-)

31 ár - Haukar (1988-)

13 ár - Njarðvík (2006-)

11 ár - Keflavík (2008-)

9 ár - Snæfell (2010-)

6 ár - Grindavík (2013-)

- ÍKF (61 ár) og ÍS (60 ár) hafa einnig unnið Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×