Handbolti

HK minnkaði muninn gegn Víkingi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blær Hinriksson skoraði sex mörk fyrir HK í Víkinni.
Blær Hinriksson skoraði sex mörk fyrir HK í Víkinni. vísir/anton
HK minnkaði muninn gegn Víkingi í umspili um sæti í Olís-deild karla með tveggja marka sigri, 26-28, í Víkinni í kvöld. Staðan í umspilinu er nú 2-1, Víkingum í vil.

Bjarki Finnbogason skoraði sjö mörk fyrir HK-inga sem voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 11-16. Blær Hinriksson var næstmarkahæstur í liði HK með sex mörk. Hann er eflaust þekktari sem leikari en Blær lék annað aðalhlutverkanna í kvikmyndinni Hjartasteinn.

Lúðvík Thorberg B. Arnkelsson skoraði sjö mörk fyrir Víkinga og þeir Kristófer Andri Daðason, Hjalti Már Hjaltason og Magnús Karl Magnússon skoruðu fjögur mörk hver.

Fjórði leikur liðanna fer fram í Digranesinu á þriðjudaginn. Með sigri tryggir Víkingur sér sæti í Olís-deildinni á næsta tímabili.

Vinni HK hins vegar á þriðjudaginn mætast liðin í oddaleik í Víkinni á föstudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×