Skoðun

Að takast á við loftslagsáhyggjur heimsins

Daðey Albertsdóttir skrifar
Á hverjum degi birtast fréttir af loftslagsbreytingum og hvaða afleiðingar hegðun okkar mannanna hafa á umhverfið. Þetta er á allra vörum og ekki af ástæðulausu. Aðstæðurnar eru, svo ekki meira sé sagt, gríðarlega ógnvekjandi. Sjónvarpsþættir á borð við „Hvað höfum við gert?“ og „Our Planet“ hafa án efa vakið mikil viðbrögð og sýna okkur hversu slæmt ástandið er. Fyrirsagnir fréttamiðlanna eru sláandi og vekja upp óþægilegar tilfinningar. Í þessum aðstæðum er því alveg rökrétt að upplifa kvíða varðandi óvissuna í framtíðinni.

Hversu miklum kvíða við finnum fyrir við slíkar fréttir stjórnast af því hversu mikla hættu við upplifum og hversu góð bjargráð við teljum okkur búa yfir til þess að takast á við hættuna. Oft ofmetur fólk hættuna og vanmetur eigin getu til að takast á við hana. Nú er ég ekki að segja að við séum að ofmeta hættuna af loftslagsbreytingum, þvert á móti, en við þurfum að átta okkur á því hvað við erum fær um að gera til að takast á við vandamálið. Það er ekki gott að upplifa langvarandi kvíða og því er nauðsynlegt að fá verkfæri í hendurnar til að takast á við hann. Það er valdeflandi að upplifa að maður geti eitthvað gert í vandamálinu og verður oft til þess að kvíðinn minnkar. Við þurfum því að gera upp við okkur hvað það er sem við höfum tækifæri á að breyta. Í stað þess að vera með stöðugt samviskubit yfir hegðun okkar eða neyslu þá getum við tekið upplýstar ákvarðanir um hverju við ætlum að breyta, byrja á því að breyta því sem við teljum okkur geta breytt og leita svo að leiðum til að ganga enn lengra og breyta fleiru. Það hjálpar engum að upplifa vonleysi og skömm yfir því hvernig við hegðum okkur og vera stöðugt að berja okkur niður fyrir að vera ekki að standa okkur. En það er ljóst að við getum ekki haldið áfram eins og áður, við þurfum að gera róttækar breytingar á lífsstíl okkar til þess að framtíðarkynslóðir eigi einhverja von.

Það er margt sem við getum gert sem einstaklingar til að minnka áhrifin og mikilvægt er að átta sig á því hvað hefur mestu áhrif. Oft er það þannig að sú hegðun sem er auðveldust að breyta er sú sem hefur minnst áhrif á umhverfið, líkt og að flokka eða nota taupoka, þó svo að það sé að sjálfsögðu jákvæð og nauðsynleg hegðun líka. Mikilvægast er að minnka neysluna til muna, hætta að henda mat, fækka flugferðum, minnka bílanotkun, minnka kjötát og dýraafurðir. Á sama tíma er mikilvægt að halda umræðunni gangandi, tölum um loftslagsmál við vini og vandamenn, samstarfsfélaga, á samfélagsmiðlum, við verslanir og fyrirtæki. Látum í okkur heyra og tökum það skýrt fram að þetta skiptir okkur máli og það þarf að gera eitthvað í vandamálinu.

Við erum öll fyrirmyndir og höfum áhrif á fólkið í kringum okkur. Ef að ég veit að aðrir í kringum mig eru að breyta hegðun sinni út af loftslagsbreytingum er ég líklegri til að gera það líka. Við þurfum að breyta hugsunarhætti þjóðarinnar og gera það að sjálfsögðum hlut að vera umhverfisvæn. Þá skiptir líka máli að umhverfisvæna hegðunin sé hagkvæm. Þegar á botninn er hvolft eru það ekki umhverfisvænu viðhorfin mín sem endilega stýra hegðuninni minni, heldur það hversu auðvelt það er að hegða sér á umhverfisvænan hátt. Til að mynda á ég bíl og keyri hann daglega í skólann. Ég tek stundum strætó en ef ég hugsa út frá bensínkostnaðinum einum og sér þá kostar strætóferðin mig meira.  Auk þess er hún  tímafrekari og meira vesen. Ég get ekki farið á hvaða tíma sem er og þarf að skipuleggja mig betur. Auðvitað eru líka kostir við að taka strætó líkt og aukin hreyfing, en eins og er þá met ég kosti bílsins fram yfir þá, þó svo að ég viti hver áhrifin á umhverfið eru. Umhverfisvænu leiðirnar þurfa að vera hagkvæmari ef það á að breyta hegðun heillar þjóðar. Þar dugar ekki að hver og einn einstaklingur taki ákvörðun um það að vera umhverfisvænn heldur liggur ábyrgðin hjá stjórnvöldum til að gera róttækar breytingar ef að við ætlum að sjá framfarir í þessum málum. En það er ekki þar með sagt að við getum kastað ábyrgðinni af okkur og ekki gert neitt fyrr en við þurfum þess nauðsynlega. Við þurfum að breyta til og við þurfum að gera það núna.

En breytingar geta tekið tíma og orku. Einhverstaðar þarf að byrja og mikilvægt að gera þetta í skrefum og með markmiðum sem eru mælanleg og gerleg til að koma okkur að lokamarkmiðinu. Þá er líklegra að hegðunin viðhaldist og okkur gangi vel heldur en ef við ætlum að breyta öllu í einu. Hver kannast ekki við það að setja sér áramótaheit um breyttan lífsstíl sem gengur mjög vel í janúar? En hvað gerist svo? Sjálfstjórnin okkar er bara svo mikil að á endanum gefumst við upp og förum aftur í sama farið. Það getur því verið gott að brjóta markmiðin upp, setja sér jafnvel vikuleg markmið sem eru mælanleg og segja öðru fólki frá því til að auka líkurnar á því að þau viðhaldist. Sem dæmi gæti markmið fyrir maí mánuð verið að hætta að kaupa kjötálegg, í kjölfarið væri hægt að borða kjöt bara einu sinni í viku og elda meira af grænmetisréttum, svo væri hægt að borða bara kjöt þegar manni er boðið í mat og að lokum taka það alveg út.

Einnig er gott að horfa á þau jákvæðu áhrif sem breytingarnar hafa í för með sér. Það að ganga frekar en að keyra til að sækja son minn í leikskólann gefur mér til dæmis aukinn gæðatíma með honum. Ég fæ líka hreyfingu og útiveru sem hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Það sama á við með breytingar varðandi matarræði. Ef ég færi mig yfir í grænkerafæði hefur það einnig jákvæð áhrif á líkamlega heilsu. En það er ekki þar með sagt að allt þurfi að gerast í dag og þetta sé klippt og skorið. Annaðhvort lifi ég bíllausum lífsstíl eða keyri bílinn minn hvert sem er, annaðhvort sé ég vegan eða borði kjöt í öll mál, það er líka hægt að fara milliveginn. 

Við stöndum frammi fyrir risastórri áskorun og þurfum að bregðast við, það er engin spurning. En við megum heldur ekki leyfa okkur að veslast upp í kvíða yfir ástandinu og upplifa að við höfum enga stjórn, því þá erum við líklegri til að gera ekki neitt. Tökum upplýstar ákvarðanir og gerum okkur grein fyrir hvað er innan okkar valds að breyta og tökum svo lítil skref í átt að stóra markmiðinu.

Höfundur er mastersnemi í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. 




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×