Viðskipti erlent

Eftirlitsstofnanir hunsuðu viðvaranir um peningaþvættið

Kjartan Kjartansson skrifar
Útibú Danske bank í Tallin í Eistlandi. Bankinn hefur viðurkennt að hundruð milljarða hafi verið þvættaðir þar.
Útibú Danske bank í Tallin í Eistlandi. Bankinn hefur viðurkennt að hundruð milljarða hafi verið þvættaðir þar. Vísir/EPA
Seðlabanki Rússlands varaði fjármálaeftirlit Danmerkur og Eistlands við grunsamlegum peningafærslum tvisvar á fimm ára tímabili en eftirlitsstofnanirnar virðast hafa virt viðvaranirnar að vettugi. Þetta er á meðal niðurstaðna rannsóknar Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA).

Talið er að hundruð milljarða dollara hafi verið þvættaðir í gegnum útibú norrænna banka í Eystrasaltslöndunum, ekki síst danska bankans Danske bank í Eistlandi ár árunum 2007 til 2015. Peningaþvættishneykslið er stærsta fjárglæpamál sem komið hefur upp á Norðurlöndunum.

Reuters-fréttastofan segir að í skýrslu EBA komi í fyrsta skipti fram í smáatriðum hvernig fjármálaeftirlit brást í tilfelli Danske bank. Þar koma meðal annars fram samskipti Seðlabanka Rússlands við eistneska og danska embættismenn árið 2007 og 2013 þar sem varað var við hættu á peningaþvætti og skattaundanskotum í tengslum við greiðslur til viðskiptavina útibús Danske bank í Eistlandi.

Fjármálaeftirlit landanna tveggja hafi ekki gripið til nægjanlegra aðgerða til þess að taka á hættunni. EBA er sögð komast að þeirri niðurstöðu að Evrópureglur hafi verið brotnar. Evrópska bankaeftirlitsnefndin sem stýrir EBA hafnaði því að grípa til aðgerða gegn Danmörku og Eistlandi þrátt fyrir að eftirlitið teldi reglur hafa verið brotnar fyrr í þessum mánuði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×