Handbolti

Snorri Steinn: Þarf að finna aðeins sterkara lýsingarorð en karakter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn hvetur sína menn áfram.
Snorri Steinn hvetur sína menn áfram. vísir/bára
Snorri Steinn Guðjónsson, annar þjálfara Vals, var stoltur af sínu liði eftir sigurinn á Aftureldingu, 28-25, á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég er bara ánægður en þarf að fá nokkrar mínútur til að melta þetta og átta mig á þessu. Þetta er risasigur fyrir okkur. Við vorum komnir í erfiða stöðu en kreistum fram framlengingu,“ sagði Snorri Steinn eftir leik.

„Við sýndum karakter en ég þarf kannski að finna aðeins sterkara lýsingarorð. Þetta var frábært hjá drengjunum. Við vorum í basli í sókninni þar sem mæðir mikið á fáum mönnum. En við misstum aldrei móðinn og héldum alltaf áfram. Seinni hálfleikurinn var frábær hjá okkur. Við misstum tvo menn út af en aukaleikararnir komu með risa framlag.“

Valur var fjórum mörkum undir í hálfleik, 10-14. Eftir hlé skelltu heimamenn í lás í vörninni og gestirnir skoruðu aðeins tvö mörk á fyrstu 18 mínútum seinni hálfleiks.

„Við áttum í vandræðum með eitt leikkerfi hjá þeim í fyrri hálfleik og fengum of mörg auðveld mörk á okkur. Að öðru leyti fannst mér vörnin ekkert hræðileg en hún átti eitthvað inni. Við gerðum of mörg mistök í fyrri hálfleik og buðum þeim upp á auðveld mörk og það fór mest í taugarnar á mér. Mér fannst fjögur mörk vera of mikill munur í hálfleik,“ sagði Snorri Steinn.

Hann var að vonum ánægður með Daníel Frey Andrésson sem varði 21 skot í marki Vals.

„Danni er frábær enda í landsliðsklassa,“ sagði Snorri Steinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×