Handbolti

Óvænta stjarna ÍBV: „Kom mjög á óvart þegar Erlingur hringdi í mig“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Úrslitakeppnin býr til stjörnur og Eyjamaðurinn Gabríel Martinez Róbertsson er ein af óvæntu stjörnum úrslitakeppni Olís-deildar karla til þessa.

Hornamaðurinn örvhenti skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum þegar ÍBV vann öruggan sigur á FH, 36-28, í 8-liða úrslitum í gær. Eyjamenn unnu báða leikina gegn FH-ingum með samtals 13 marka mun og eru komnir í undanúrslit. Gabríel skoraði alls tíu mörk í leikjunum tveimur gegn FH og klikkaði ekki á skoti.

Hann fékk tækifæri í liði Íslandsmeistaranna eftir að Theodór Sigurbjörnsson og Grétar Þór Eyþórsson meiddust og hefur nýtt það frábærlega.

„Teddi er einn besti leikmaður í sögu ÍBV. Ég hélt ég ætti ekki séns fyrst þeir voru með. Það kom mér mjög mikið á óvart þegar Erlingur [Richardsson, þjálfari ÍBV] hringdi í mig og sagði að ég ætti að vera í hóp,“ sagði Gabríel í samtali við Vísi eftir leikinn í Eyjum í gær.

„Ég er mjög sáttur. Þetta var minn besti leikur,“ bætti hann við.

Gabríel hefur verið mjög vaxandi eftir að hann kom inn í lið Eyjamanna.

„Fyrst var ég mjög stressaður. Ég get alveg viðurkennt það. En það er frábært að vera í þessu liði og þeir standa alltaf þétt við bakið á mér. Þannig að þetta hefur verið mjög létt,“ sagði Gabríel sem lék með ÍBV U í Grill 66 deildinni í vetur. Þar öðlaðist hann góða reynslu.

„Það er mjög gott að byrja í U-liðinu og koma svo inn í meistaraflokkinn,“ sagði Gabríel en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Eyjamenn fá nú góða hvíld þar til undanúrslitin hefjast. Þar mæta þeir annað hvort Haukum eða Stjörnumönnum. Liðin eigast við í oddaleik á Ásvöllum annað kvöld.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.