Umfjöllun og viðtöl: KR - ÍR 83-89 │ÍR tók heimaleikjaréttinn eftir framlengingu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kevin Capers var stigahæstur í lið ÍR
Kevin Capers var stigahæstur í lið ÍR vísir/daníel
ÍR stal heimavallaréttinum af KR í úrslitaeinvígi Domino‘s deildar karla með sex stiga sigri í framlengdum leik í DHL höllinni í Vesturbænum í kvöld.

Kevin Capers skoraði fyrstu stigin fyrir ÍR úr hraðaupphlaupi eftir að gestirnir stálu boltanum. KR-ingar jöfnuðu hins vegar um hæl og skoruðu sex stig í röð. Það var smá um klaufaleg mistök hjá KR í fyrstu sóknunum og Breiðhyltingar nýttu sér það, Matthías Orri Sigurðarson kom þeim yfir 8-6 á 4. mínútu.

Liðin skiptust á að hafa forystuna í fyrsta leikhluta en ÍR átti lokaorðið í leikhlutanum og fór með 14-20 forskot inn í annan leikhluta. Bláklæddir gestirnir höktu smá í upphafi annars leikhluta en Borche Ilievski var fljótur að taka leikhlé og þá fóru hlutirnir að detta.

ÍR spilaði af hörku og voru dómararnir ekkert að leyfa of mikið, KR var komið í skotrétt um miðjan annan leikhluta. Það reyndist þeim mjög drjúgt og 13 af 40 stigum KR í fyrri hálfleik kom úr vítum. Tveir þristar í röð frá Gerald Robinson komu ÍR í sex stiga forskot á 18. mínútu. ÍR náði að hanga á þeirri forystu út leikhlutann og var staðan 40-44 fyrir ÍR í hálfleik.

KR kom sterkara inn í seinni hálfleikinn og tók forystuna. Þeir héldu henni vel út leikhlutann og það var ekki fyrr en á 29. mínútu að Robinson jafnaði metinn fyrir ÍR. Liðin skiptust á forystunni undir lok leikhlutans en Matthías Orri kom ÍR yfir fyrir lokin, 63-62 fyrir ÍR fyrir síðasta fjórðunginn.

Spennan sem hafði verið í leiknum allan tímann fór bara stigmagnandi í fjórða leikhluta. Liðin skiptust á forystunni og munurinn varð aldrei meiri en fjögur, fimm stig. Á síðustu sekúndunum var KR 77-75 yfir. Brotið var á Matthíasi Orra sem fór á vítalínuna. Matthías, uppalinn KR-ingur sem hafði ekki verið að hitta vel úr vítum í úrslitakeppninni, fór svellkaldur á línuna og setti bæði vítaskotin beint niður og náði í framlengingu.

Í framlengingunni byrjaði Kevin Capers á þristi fyrir ÍR. Liðunum gekk illa að skora en Pavel Ermolinskij jafnaði fyrir KR með þristi. Á síðustu mínútunni náði Sigurður Gunnar Þorsteinsson að koma ÍR yfir og fékk vítaskot að auki sem hann setti ofan í. Það voru dæmd skref á Julian Boyd í næstu sókn og Robinson refsaði með körfu fyrir ÍR og tryggði sigurinn. Sigurkarl Róbert Jóhannesson átti svo síðasta orðið, ÍR vann 83-89.

vísir/daníel
Af hverju vann ÍR?

ÍR var grimmara í baráttuatriðunum, fráköstunum. Þetta var hörku leikur sem var spennandi allan tímann, ÍR kann vel við sig í spennuleikjum og eins og Borche Ilievski sagði fyrr í vetur þá vill það vera þannig að ÍR vinni spennuleikina.

Breiðhyltingar gefast aldrei upp, eru fullir af karakter og það gerði mikið fyrir þá í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Gerald Robinson var gífurlega mikilvægur í liði ÍR og setti flestar hans körfur á mjög mikilvægum tímapunktum. Kevin Capers var stigahæstur og hann fór fyrir sóknarleiknum, var á tímum eini maðurinn sem skoraði fyrir ÍR. Mikilvægustu stigin settu samt Matthías Orri Sigurðarson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Stigin sem tryggðu framlenginguna og stigin sem komu ÍR yfir undir lok framlengingarinnar.

Í liði KR var stigaskorið rosalega jafnt. Julian Boyd og Pavel Ermolinskij voru með 15, Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox 16. Byrjunarliðsmenn KR voru allri að spila mjög jafnt og það var enginn sem stóð eitthvað sérstaklega upp úr.

Hvað gekk illa?

Á einn vegin er hægt að segja að ekkert hafi gengið illa því þetta var algjörlega magnaður körfuboltaleikur frá upphafi til enda. Spennandi allan tímann og mjög jafnt á liðunum. Hins vegar gerðu bæði lið mikið af mistökum.

Það var nóg um tapaða bolta, sóknarvillur og bæði lið hefðu getað stoppað sóknarfráköstin hjá hinu liðinu betur.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast öðru sinni í Hertz hellinum, Seljaskóla, á föstudagskvöld.

vísir/daníel
Sigurður: Vorum fínir í dag, ekki góðir

„Okkur finnst við drullu góðir. Við vorum hins vegar bara fínir í dag, ekki góðir,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson, leikmaður ÍR, eftir leikinn.

„Við viljum ekki að lið séu að skora 80 stig á okkur, en þeir voru að skora úr erfiðum skotum, Jón steig upp í lokin og setti nokkur erfið skot.“

Hvað gaf ÍR sigurinn í dag? „Við rifum mikið af sóknarfráköstum og þeir voru ekki að fá það mikið af opnum skotum. Okkur gekk illa að stíga út í byrjun en svo náum við að loka ágætlega á þá.“

ÍR er komið í bílstjórasætið í einvíginu en þarf þó að vinna tvo leiki í viðbót.

„Við þurfum að halda okkur við leikplanið okkar, ef við gerum það eigum við góðan séns.“

 

vísir/daníel
Jón: Þetta er spurning um hausinn

„Þetta var langur leikur og við settum ekki niður skot. Orkan var þeirra megin í dag, við vorum alltaf að elta og þeir voru grimmari í lausum boltum og fráköstum,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.

„Það var smá úrslitaskrekkur í okkur í byrjun en við komum ágætlega stilltir í seinni hálfleikinn.“

KR var í nokkrum vandræðum að setja körfur á ÍR fimm á fimm. Jón hafði þó ekki miklar áhyggjur af því.

„Við finnum út úr því. Liðin eru að þreifa hvort á öðru. Auðvitað var þetta mikilvægur leikur en við munum aðlaga okkar leik og finna svör.“

Kom eitthvað í leik ÍR honum á óvart? „Nei, þeir voru  ferskir og flottir. Spiluðu af hörku og Capers var öflugur. Þegar leið á leikinn var hann enn ferskur í fótunum en við ekki.“

„Þetta var með þeim í framlengingunni, það er erfitt að klikka á mörgum skotum og við dettum niður. Við gerum fullt af mistökum.“

„Við erum með mannskap í að ráða öllu í teignum en þetta er bara spurning um hausinn. Við eigum að vera mun betri sóknarlega og eigum að geta fundið lausnir á þessum varnarleik.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira