Handbolti

Bjarki Már sá rautt í mögnuðum endurkomusigri Berlínarrefanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már skoraði eitt mark áður en hann fékk rauða spjaldið.
Bjarki Már skoraði eitt mark áður en hann fékk rauða spjaldið. vísir/getty
Bjarki Már Elísson fékk að líta rauða spjaldið þegar Füchse Berlin vann endurkomusigur á Stuttgart, 33-34, í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Bjarki Már var rekinn út af þegar tíu mínútur voru eftir. Þá var Füchse Berlin þremur mörkum undir og skömmu síðar var munurinn orðinn fjögur mörk, 31-27.

Berlínarrefirnir áttu hins vegar magnaða endurkomu og unnu síðustu rúmu sjö mínútur leiksins, 7-2. Hans Lindberg skoraði sigurmarkið úr víti þegar leiktíminn var runninn út.

Bjarki Már skoraði eitt mark fyrir Füchse Berlin sem er í 6. sæti deildarinnar. Þetta var fyrsti sigur liðsins í fimm deildarleikjum.

Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Pick Szeged eru í erfiðri stöðu eftir átta marka tap fyrir Vardar, 31-23, í Skopje í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Stefán Rafn skoraði tvö mörk fyrir ungversku meistarana sem voru 14-12 undir í hálfleik. Í seinni hálfleik var Vardar hins vegar miklu sterkari aðilinn og vann á endanum átta marka sigur, 31-23.

Seinni leikur liðanna fer fram sunnudaginn 5. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×