Körfubolti

Færri gætu komist að en vilja í Seljaskóla

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það verður þétt raðað á pallana í Seljaskóla
Það verður þétt raðað á pallana í Seljaskóla vísir/daníel
ÍR og KR mætast í öðrum leik úrslitanna í Domino's deild karla í Hertz hellinum í Seljaskóla í kvöld. Búist er við mjög mikilli aðsókn á leikinn og gæti þurft að vísa fólki frá.

Leikurinn hefst klukkan 20:00 en húsið í Seljaskóla opnar klukkan 18:00 og hleypt verður inn í salinn sjálfan klukkan 19:00 eftir því sem fram kemur á Facebooksíðu félagsins.

Steinar Þór Guðjónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar ÍR, staðfesti við Vísi í dag að búið væri að koma fyrir pöllum meðfram hliðum vallarins til þess að koma fyrir fleira fólki.

Hann sagði að með þessari viðbót ætti að vera hægt að taka á móti um 1500 manns.

Aðsóknarmetið í húsið er í kringum 1250 manns að sögn Steinars og var það sett í undanúrslitunum við Stjörnuna á dögunum. Allar líkur eru á því að það verði slegið í kvöld.

Ekki er hægt að kaupa miða á netinu, aðeins í hurðinni.

Steinar sagðist aldrei hafa fundið fyrir eins miklum áhuga á leik hjá ÍR og því möguleiki á að ekki komist allir að sem vilja. Því er þeim sem ætla að mæta á völlinn ráðlagt að mæta tímanlega.

Fyrir þá sem ekki komast í Seljaskóla verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst upphitun Kjartans Atla Kjartanssonar og sérfræðinga í Domino's Körfuboltakvöldi klukkan 19:15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×