Körfubolti

Færri gætu komist að en vilja í Seljaskóla

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það verður þétt raðað á pallana í Seljaskóla
Það verður þétt raðað á pallana í Seljaskóla vísir/daníel

ÍR og KR mætast í öðrum leik úrslitanna í Domino's deild karla í Hertz hellinum í Seljaskóla í kvöld. Búist er við mjög mikilli aðsókn á leikinn og gæti þurft að vísa fólki frá.

Leikurinn hefst klukkan 20:00 en húsið í Seljaskóla opnar klukkan 18:00 og hleypt verður inn í salinn sjálfan klukkan 19:00 eftir því sem fram kemur á Facebooksíðu félagsins.

Steinar Þór Guðjónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar ÍR, staðfesti við Vísi í dag að búið væri að koma fyrir pöllum meðfram hliðum vallarins til þess að koma fyrir fleira fólki.

Hann sagði að með þessari viðbót ætti að vera hægt að taka á móti um 1500 manns.

Aðsóknarmetið í húsið er í kringum 1250 manns að sögn Steinars og var það sett í undanúrslitunum við Stjörnuna á dögunum. Allar líkur eru á því að það verði slegið í kvöld.

Ekki er hægt að kaupa miða á netinu, aðeins í hurðinni.

Steinar sagðist aldrei hafa fundið fyrir eins miklum áhuga á leik hjá ÍR og því möguleiki á að ekki komist allir að sem vilja. Því er þeim sem ætla að mæta á völlinn ráðlagt að mæta tímanlega.

Fyrir þá sem ekki komast í Seljaskóla verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst upphitun Kjartans Atla Kjartanssonar og sérfræðinga í Domino's Körfuboltakvöldi klukkan 19:15.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.