Handbolti

Aldrei betri en í leikjunum á móti ÍBV í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjakonur ráða ekker við Ragnheiði Júlíusdóttur.
Eyjakonur ráða ekker við Ragnheiði Júlíusdóttur. Vísir/Vilhelm
Framkonan Ragnheiður Júlíusdóttir hefur farið á kostum í fyrstu tveimur leikjunum í einvígi Fram og ÍBV í úrslitakeppni Olís deildar kvenna.

Ragnheiður er með 20 mörk og 8 stoðsendingar í fyrstu tveimur leikjum einvígisins. Framliðið hefur unnið báða og kemst í lokaúrslitin með þriðja sigrinum en liðin mætast í Safarmýrinni í kvöld.

Í síðasta leik sem Framliðið vann í Vestmannaeyjum var Ragnheiður Júlíusdóttir með 13 mörk úr aðeins 15 skotum sem gerir 86,7 prósent skotnýtingu.

Þetta er þó ekki fyrstu kynni Eyjaliðsins af þrumuskotum Ragnheiðar því hún hefur farið kostum í öllum leikjunum á móti ÍBV í Olís deildinni á þessu tímabili.

Ragnheiður hefur alls skorað 45 mörk í fimm leikjum Fram á móti ÍBV á þessu tímabili eða 9,0 að meðaltali í leik. Hún hefur einnig gefið 4,4 stoðsendingar að meðaltali og því komið samtals með beinum hætti að 13,4 mörkum að meðaltali í leik.

Í hinum átján leikjum sínum á móti öðrum liðum deildarinnar er Ragnheiður aftur á móti með 6,2 mörk og 2,4 stoðsendingar að meðaltali í leik og hefur því komið með beinum hætti að 8,6 mörk í þeim leik eða næstum því fimm mörkum færra í hverjum leik.

Leikur Fram og ÍBV hefst í kvöld klukkan 18.30 og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport 5. Strax á eftir verður sýndur þriðji leikurinn hjá Val og Haukum. Bæði Fram og Valur tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn vinni þau leiki sína í kvöld.

Ragnheiður Júlíusdóttir í Olís deild kvenna 2018/19:

Á móti ÍBV

5 leikir

45 mörk - 9,0 í leik

22 stoðsendingar - 4,4 í leik

66 mörk sköpuð - 13,4 í leik

55,6% skotnýting

Á móti öðrum liðum

18 leikir

111 mörk - 6,2 í leik

44 stoðsendingar - 2,4 í leik

155 mörk sköpuð - 8,6 í leik

48,3% skotnýting




Fleiri fréttir

Sjá meira


×